PO
EN

Baráttan er hafin og við bökkum hvergi

Deildu 

Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, flutti eftirfarandi ræðu á þingfundi í morgun, 17. október. Eitt mál var á dagskrá: Þingrof.

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tilkynningu forsætisráðherra um þingrof og kosningar á krefjandi tímum í efnahagsmálum og upp er komin staða sem varðar okkur öll. Atburðarásin var svona.

Sunnudagurinn 13. október 2024
Þá upplýsti forsætisráðherra mig óformlega um þá fyrirætlan sína að leggja fyrir forseta tillögu um að rjúfa Alþingi og boða til kosninga, sbr. 24. gr. stjórnarskrárinnar. Í beinu framhaldi hélt forsætisráðherra blaðamannafund þar sem hann gerði grein fyrir þessum áformum.

Mánudagurinn 14. október 2024
Næsta dag hélt forsætisráðherra til fundar við forseta Íslands, þar sem hann bar upp tillögu sína um þingrof. Fundurinn fór fram án þess að tillagan hefði áður verið rædd á fundi ríkisstjórnar.

Þriðjudagurinn 15. október 2024
Forsætisráðherra hélt aftur á fund forseta og lagði þar fram beiðni um lausn frá embætti fyrir hönd sína og ráðuneytis síns, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar. Sú beiðni hafði heldur ekki verið rædd í ríkisstjórn. Sama dag gaf forseti frá sér yfirlýsingu um að fallist væri á tillögur um þingrof og lausnarbeiðni forsætisráðherra.

Forsætisráðherra gerði framangreindar ráðstafanir allar án þess að þær hafi fyrst verið ræddar í ríkisstjórn. Það uppnám og vandræðagangur sem á eftir fylgdi er afleiðing þess að forsætisráðherra hafði ekki undirbúið neitt og tók í raun ákvörðun sem formaður Sjálfstæðisflokksins en ekki sem forsætisráðherra. Formsatriðum verður svo í raun ekki fullnægt fyrr en á ríkisráðsfundi síðar í dag þar sem hin lögformlegu ríkisstjórnarskipti fara fram. Við tekur stjórn sem þingflokkur VG hefur ákveðið að eiga ekki aðild að enda myndi þá innan hennar ríkja fullkomið vantraust þar sem Bjarni Benediktsson hefur reynst óhæfur til að leiða ríkisstjórn. Og það er ekki gott fyrir fólkið í landinu. Þar með er það skýrt. Tímabili formlegs samstarfs VG við Sjálfstæðisflokkinn er lokið.

Það er sögulegt og áhugavert hvað það er sem rekur forsætisráðherra til þess að rjúfa 7 ára samstarf einhliða og í fjölmiðlum. Líkast til eru það flokkshagsmunir og hagsmunir hans sjálfs sem foringja í kreppu sem vega þar þyngst. Það er hans mat. Fram kom að herská stefna gagnvart hælisleitendum og meintur orkuskortur var það sem Bjarni Benediktsson kaus að láta brjóta á. En viðfangsefnin eru önnur; efnahagsmál og húsnæðismál vega þar þyngst og baráttan við verðbólguna og vextina.

Lífskjör venjulegs fólks áttu að mati okkar Vinstri grænna að vera viðfangsefni ríkisstjórnarinnar á hennar síðustu mánuðum (meira) en Sjálfstæðisflokkurinn var ekki tilbúinn í þá vegferð. Þessi sjónarmið voru skýr á ársfundi ASÍ sem og þingi BSRB á dögunum. Áherslan á félagslegar lausnir og um það eiga kosningarnar að snúast.

Alþingi þarf að leysa úr fjölmörgum viðfangsefnum – afgreiðsla fjárlaga er ekki einfalt mál. Þingflokkur VG mun nálgast það verkefni af ábyrgð í þeim þingnefndum sem við á.

Nú sem aldrei fyrr mun forystufólk flokkanna þurfa að vera bæði lagið og lipurt við úrlausn mála og ljóst að breiða samstöðu þarf í þágu samfélagsins alls. Þingið getur sameinast um það.

Verkefnið er skýrt. Kosningar eftir 45 daga eru staðreynd. Á þeim tíma þarf að leggja fram áherslur, manna lista og ganga á fund kjósenda um allt land.

Málefnaáherslur VG eru skýrar eftir nýafstaðinn landsfund. Efnahags- og húsnæðismál á félagslegum grunni. Það er það sem við heyrum í samtölum við fólk. Það er brauðstritið og að venjulegt fólk þurfi ekki að keppa við moldríka fjárfesta um húsnæði. Almannaþjónustuna og auðlindir verður að verja frá yfirgangi fjármagnsaflanna og kredduhugmyndum markaðarins. Hugmynda sem eru líka hluti af kynjakerfinu. Sótt er að réttindum kvenna um allan heim og þann árangur þarf að standa vörð um. Líka hér á landi. Við ætlum ekki til baka. Loftslagsváin, möguleikar komandi kynslóðir og vandi vistkerfanna er líka verkefni líðandi stundar við þurfum enn á ný að reisa varnir fyrir náttúruna.

Við lifum áhugaverða tíma í stjórnmálum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur verið hluti stjórnmálasögunnar nú í 25 ár þar sem við höfum átt sæti í ríkisstjórnum í 11 ár alls og sett okkar mark á samtímann með mikilvægum ákvörðunum af félagslegum toga. Nú er komið að næsta kafla og við búum okkur undir að hitta kjósendur sannfærð um erindi okkar. Baráttan er rétt að byrja og við erum tilbúin.

Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, á Alþingi fimmtudaginn 17. október 2024

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search