PO
EN

VG hafnar niðurskurði og svelti velferðarsamfélagsins

Deildu 

Það er hefðbundin aðferð hægrisins að svelta opinber kerfi, tryggja að þau virki ekki, bíða þess að fólk verði reitt og selja þau svo á útsölu til fjármagnseigenda.

Það er vissulega flókið ástand í efnahagsmálum þjóðarinnar. Stærsta hagsmunamál okkar allra er að vextir lækki og verðbólga hjaðni og forsenda þess að fólk nái endum saman og þurfi ekki að hafa áhyggjur af hverjum mánaðamótum. Almenningur skóp ekki þá þenslu sem varð þess valdandi að hér hafa verið okurvextir misserum saman. Þetta vitum við í VG.

Hallalaus fjárlög 2026 ógjörningur nema með niðurskurði

Allir flokkar sem svöruðu skýrt, nema VG, sem mættu á kosningafund Samtaka atvinnulífsins í vikunni, svöruðu því til að þeir vildu ná hallalausum fjárlögum árið 2026. Það er ógjörningur nema með stórfelldum niðurskurði í opinberum rekstri, uppsögnum og aukinni gjaldtöku. VG hafnar niðurskurði enda augljóst að hann bitnar helst á þeim sem síst skyldi. Þvert á móti höfum við þá bjargföstu trú að standa þurfi vörð um innviði velferðarsamfélagsins. Það sem sum kalla bákn er tugþúsundir opinberra starfsmanna sem vinna myrkranna á milli við að halda samfélaginu okkar gangandi.

Niðurskurður felur óhjákvæmilega í sér að þjónusta minnkar og kostnaður venjulegs fólks eykst. VG er óhrætt við að segja það sem augljóst er, að orðaleppar um hagræðingu, endurmat útgjalda, forgangsröðun, stafrænar lausnir og innkaupahagræðingu munu ekki ná tugmilljarða sparnaði á næsta ári svo að fjárlög verði hallalaus. Sé nauðsynlegt að afla aukins fjár til sameiginlegra verkefna þá munum við afla þess þar sem fjármagnið er, hjá ríkasta 1% landsins en ekki hjá almenningi.

Við munum standa vörð um velferðarkerfið

Lausnin við áskorunum sem steðja að velferðarkerfinu, t.d. í heilbrigðis- og menntamálum, getur ekki falist í því að svelta kerfin og bjóða þau svo til einkaaðila. Við ætlum að verja hagsmuni almennings með því að standa vörð um velferðarkerfið. Þjónustu við almenning sem er fjármögnuð úr okkar sameiginlegu sjóðum og stendur öllum landsmönnum til boða. Þá þjónustu ætlum við að fjármagna með skatttekjum úr vösum þeirra sem geta, í þágu þeirra sem þurfa.

Við viljum meiri samneyslu en ekki minni, við viljum jöfn tækifæri, aðgerðir í þágu náttúrunnar, við höfnum stéttskiptingu í menntakerfinu og við ætlum ekki aftur á bak í kvenfrelsismálum.

Verum vinstra megin.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search