Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Sjálfstæðisflokksins, fékk það mikilvæga verkefni í hendurnar að útbúa uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Hún átti að vera metnaðarfull og trúverðug og fékk hann tæp þrjú ár til verksins. Næstum þúsund daga.
Á yfirborðinu lítur útkoman ágætlega út. Það hljómar til dæmis vel að aðgerðirnar séu 150 talsins. En við nánari athugun kemur í ljós að 44 prósent aðgerðanna eru einungis á hugmyndastigi, 55 prósent þeirra eru ekki fjármagnaðar og útreiknaður samdráttur á einungis við um brot af þeim. Hann dugar ekki einu sinni til að ná skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum. Trúverðugleikinn er þar með horfinn. Og til að undirstrika metnaðarleysið var engum umhverfis- og náttúruverndarsamtökum hleypt að borðinu, heldur var þeim haldið fyrir utan vinnuna, allan tímann. Í tæp þrjú ár. Enda er lítið sem ekkert tillit tekið til náttúruverndarsjónarmiða eða líffræðilegrar fjölbreytni.
Óboðlegt metnaðarleysi
Afleiðingar loftslagsbreytinga eru ekki einungis farnar að sjást í fjarlægum heimshlutum. Þær eru mættar til Íslands. Það er staðreynd. Við sjáum þær til dæmis að verki í öflugri ofanflóðum, tíðara ofsaveðri og jöklum sem hörfa og hverfa.
Áhugaleysi Sjálfstæðisflokksins á hagsmunum okkar unga fólksins og framtíðarkynslóða er augljóst þar sem þau hafa gert ráð fyrir 35 prósenta niðurskurði í framlögum til loftslagsmála næstu fimm árin. Hér hefur misskilningur átt sér stað. Við vitum jú flest að að þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda – ekki fjármögnun loftslagsaðgerða. Við þurfum fjármagnaða aðgerðaáætlun sem dregur úr heildarlosun um a.m.k. 55 prósent fyrir árið 2030 og tryggir réttlát umskipti. Losunin hefur aldrei verið meiri á heimsvísu og nú. Það er rauð viðvörun.
Það er fullkomlega óboðlegt að ein ríkasta þjóð heims bjóði upp á metnaðarleysi í loftslagsmálum. Plagg Sjálfstæðisflokksins er ekki aðgerðaáætlun, heldur óheiðarlegur óskalisti sem veltir afleiðingum loftslagsbreytinga og tilheyrandi kostnaði yfir á okkur unga fólkið og framtíðarkynslóðir.
Trúverðug stefna og metnaðarfull markmið
VG hefur skýra sýn, yfirgripsmikla þekkingu og langmesta reynslu allra flokka þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum. Við munum svara kalli Loftslagsráðs með heildrænni stefnu í loftslagsmálum, tímasettum, vel skilgreindum og mælanlegum markmiðum, og fjármagnaðri aðgerðaáætlun. Það verður ekkert gluggaskraut, heldur alvöru árangur.
Ég ætla að berjast fyrir því að við förum loksins að ná alvöru árangri í loftslagsmálum og tryggja raddir líffræðilegrar fjölbreytni og náttúruverndarsamtaka í allri vinnu VG. Það er komið nóg af metnaðarleysi og sýndarmennsku hægrisins í umhverfis- og loftslagsmálum og kominn tími til að alvöru hugsjónafólk með þekkingu og reynslu fái sviðið.
Höfundur er oddviti Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi norður og sérfræðingur í umhverfisog loftslagsmálum.