PO
EN

Orkan okkar allra

Deildu 

Það hefur aldrei verið mikilvægara að taka stöðuna og greina bæði orkuþörf og orkusóun, hvar koma má í veg fyrir tap í kerfinu um leið og tryggt verði að heimilin séu ávallt í forgangi þegar kemur að orkuauðlindinni. Staðreyndin er að mengandi stóriðja notar 80% af raforku landsins meðan önnur fyrirtæki nota um 15% og heimilin einungis 5% hennar. Þá tapast 4-5% af framleiddri raforku í kerfinu sjálfu, sem jafngildir notkun allra heimila í landinu og því gríðarlega mikilvægt að leita leiða til að koma í veg fyrir þessa orkusóun og tap á raforku. Það er hægt að gera með tiltölulega litlum tilkostnaði eins og fram kom á fundi Landsvirkjunar í nóvember 2023.

Nú á tímum orkuskipta er mikilvægt að næg orka sé til svo hægt verði að halda áfram á þeirri braut í þágu þjóðar, umhverfis og náttúru. Þar er mikilvægt að gæta hagsmuna almennings og heimila í landinu með jöfnuð og hófsemi að leiðarljósi. Orkan er nefnilega sameiginleg auðlind þjóðarinnar sem á að nýtast okkur öllum á sem hagstæðustu verði og alls ekki má forgangsraða henni í þágu fárra. Arðurinn af þessari auðlind okkar allra verður þá ekki í formi hagstæðrar orku til landsmanna heldur fer hann í arðgreiðslur til örfárra líkt og við þekkjum hvað varðar aðrar auðlindir. Því verður að tryggja heimilum aðgang að orku og heitu vatni á sanngjörnu verði með lagasetningu því það eru þau sem sannarlega eiga að njóta góðs af þessari auðlind um ókomna tíð.

Það er aldeilis ekki skynsamlegt að framleiða stöðugt meiri orku náttúrunni okkar til skaða, heldur verður að staldra við og leggja allt kapp á að nýta betur aflið frá þeim auðlindum sem þegar hafa verið virkjaðar. Um leið þarf að skilgreina í hvað orkan fer og bæta flutningsleiðir hennar þannig að hún dreifist vel um landið og ekki þurfi að notast við mengandi orkugjafa. Þá fyrst verður hægt að fara skynsamlega af stað í næstu skref. 

Staðreyndin er sú að Íslendingar framleiða mest allra þjóða af grænni orku miðað við höfðatölu. Samt er því stöðugt haldið á lofti að hérlendis ríki orkuskortur og svörtustu sviðsmyndir dregnar upp í því samhengi. Eins og forstjóri Landsvirkjunar benti sjálfur á í nýlegu viðtali þá er þessi umræða á villigötum og frjálslega farið með staðreyndir. Það er hins vegar staðreynd að við veljum að selja um 80% af allri framleiddri raforku til mengandi stóriðju hérlendis og það virðist ekkert lát vera á eftirpurninni eftir grænni orku í þágu viðlíka hugmynda. Hér ríkir ekki orkuskortur heldur röng forgangsröðun og gróðahyggja af verstu sort. Kynnum okkur staðreyndir og verum samábyrgð þegar kemur að verndun náttúru á kostnað virkjana og stóriðju þar sem gróðinn fer á fáar hendur. Tryggjum orku fyrir venjulegt fólk á sanngjörnu verði, það er vinstri mál og fyrir það stöndum við í VG.

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Suðurkjördæmi og ritari hreyfingarinnar

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search