PO
EN

Farvegur fyrir baráttu

Deildu 

Kosningarnar mörkuðu þáttaskil í íslenskum stjórnmálum. VG komst ekki inn á þing í fyrsta skipti í 25 ár. Flokkum á þingi fækkaði niður í sex, með fráhvarfi VG og Pírata og í fyrsta skipti frá 1937 eiga róttækir vinstrimenn enga fulltrúa á Alþingi. Fyrir okkur sem sem buðum fram okkar krafta í þágu hugsjóna vinstrimanna voru kosningarnar vonbrigði en jafnframt skýr skilaboð. Um leið færir þessi niðurstaða aukna ábyrgð á þau stjórnmálaöfl á Alþingi sem hafa félagslega taug. Aðhaldið gegn hægristefnunni verður að vera til staðar. Að sama skapi er einnig ástæða til að hafa áhyggjur af náttúruverndar- og umhverfismálum, en þau mál virðast munu eiga fáa málsvara á þingi næstu árin. Hættan er sú að gróðaöflin sæti færis og reyni að keyra í gegn breytingar á lögum sem einfalda og auðvelda ásókn þeirra afla í einstaka náttúru landsins nú þegar að færri eru til að standa vaktina og verjast.

Stjórnmálahreyfingar eru farvegur
Stjórnmálahreyfingar eru fyrst og fremst farvegur fyrir baráttu um hugmyndir í samfélaginu. Þeirri baráttu mun aldrei ljúka svo lengi sem ójöfnuður og óréttlæti fyrirfinnst í samfélaginu. Baráttan hefur staðið um aldir. Milli þeirra sem ekkert hafa að bjóða nema vinnuna og svo þeirra sem vilja viðhalda sínum auði, forréttindum og áhrifum. Í þeirri baráttu hafa verið unnir margir sigrar og síðustu ár þar ekki undanskilin. Vegna aðkomu VG í ríkisstjórn síðustu sjö ár urðu mörg þjóðþrifamál að lögum. Þrepaskipt skattkerfi endurreist, fæðingarorlof lengt, skólamáltíðir gerðar gjaldfrjálsar, umbætur á þungunarrofslöggjöf, örorkulífeyriskerfið bætt, lögum breytt í þágu þolenda kynferðisofbeldis, heilbrigðiskerfið eflt, bygging nýs Landspítala hafin ásamt fleiru. Áður hafði hreyfingin tekið til eftir efnahagshrunið í félagi við Samfylkinguna árin 2009-2013. Á því kjörtímabili var einnig mikill árangur, þ.m.t. stór hluti af því regluverki sem gildir um náttúruvernd, innleiðing Árósarsamningsins, rammaáætlun um vernd og nýtingu svo eitthvað sé nefnt. Þannig liggur fyrir að stjórnmálahreyfingin VG var farsæll farvegur fyrir róttæka vinstripólitík og náttúruvernd í aldarfjórðung. Stjórnmálahreyfing sem gat komið mikilvægum málum til leiðar.

Farvegir breytast
Í hlaupum eiga farvegir til að breytast. Slíkar breytingar eru oft tímabundnar og ganga til baka þegar sjatnar í ánum. Stundum eru þær varanlegar. Farvegurinn fyrir róttæk vinstristjórnmál og umhverfismál verður að vera til staðar á Alþingi og í ljósi þessara breytinga nú er ljóst að vinstrið þarf að endurskipuleggja sig ef það ætlar að ná áframhaldandi árangri í stjórnmálum. Framundan er deigla, endursköpun og uppbygging þar sem við félagar í VG látum til okkar taka.

Svandís Svavarsdóttir, formaður VG

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search