PO
EN

Ályktun frá stjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs

Deildu 

Víða er nú vegið að grundvallargildum um frið, mannréttindi og félagslegt réttlæti. Við þær aðstæður verður Ísland að beita sér enn frekar fyrir því að alþjóðalög séu virt og standa vörð um stefnu og starf Sameinuðu þjóðanna.

Vinstri græn styðja heilshugar sjálfsákvörðunarrétt grænlensku þjóðarinnar og standa þétt með rétti Palestínumanna til eigin lands. Hreyfingin fordæmir þjóðarmorð og stríðsglæpi gegn palestínsku þjóðinni, ólögmætt árásarstríð rússneskra yfirvalda í Úkraínu og ítrekar stuðning sinn við kröfur Úkraínumanna um réttlátan frið. Staðan í Evrópu, fyrir botni Miðjarðarhafs, í Súdan, Afganistan og víðar um heim er ógnvekjandi og má ekki leiða til enn frekari vígvæðingar og hörmunga eða frekara bakslags í mannréttindum.

Sérstakar áhyggjur vekja yfirlýsingar og afstaða nýs forseta Bandaríkjanna. Ásælni hans og lítt dulbúnar hótanir um að fara með valdi gegn fullveldi og sjálfsákvörðunarrétti annarra ríkja og þjóða auk hugmynda um þjóðernishreinsanir á Gaza eru ógnvænlegar og í algjörri andstöðu við alþjóðalög. Vinstri græn krefjast þess að íslensk stjórnvöld fordæmi slíkan yfirgang afdráttarlaust og komi þeirri afstöðu sinni skýrt á framfæri með pólitískum og diplómatískum leiðum. Ísland, sjálfstæði þess og öryggi, á allt undir því að alþjóðalög séu virt og alþjóðlegar stofnanir geti sinnt hlutverki sínu.

Í því ljósi er það sérlega uggvænleg þróun að stór ríki kjósi að segja sig frá þátttöku í ýmsum alþjóðastofnunum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasáttmálum, s.s. á sviði heilbrigðismála, mannúðarmála, loftslagsmála og frjálsra viðskipta. Einnig vekur óhug að auðjöfrar séu farnir að nota miðla sína og völd til þess að grafa undan lýðræði í öðrum löndum.

Mannréttindi í Bandaríkjunum eru fótum troðin með lagasetningu sem grefur undan kvenfrelsi, réttindum hinsegin fólks, innflytjenda og annarra jaðarhópa. Vegið er að alþjóðlegum dómstólum og alþjóðleg þróunarsamvinna Bandaríkjanna, sem miklu máli skiptir fyrir fátækustu ríki heims, er nær að engu gerð. Staðan er grafalvarleg og full ástæða til þess að Ísland láti sína rödd heyrast að því tilefni og nýti pólitískar og diplómatískar leiðir til þess.

Ísland á ætíð að koma fram af dirfsku á alþjóðavettvangi í baráttu fyrir friði, mannréttindum, kynjajafnrétti, kvenfrelsi og réttindum viðkvæmra hópa eins og hinsegin fólks, innflytjenda og fatlaðs fólks, sem og í baráttu gegn umhverfis- og loftslagsvá. Því miður eiga þessi gildi undir högg að sækja víða um heim, þar á meðal í löndum sem eru hefðbundin náin samstarfsríki Íslands. Samstaða með hinum Norðurlöndunum og öðrum ríkjum sem deila gildum Íslands hefur sjaldan verið þýðingarmeiri. Þrátt fyrir smæð getur Ísland lagt mikið af mörkum með öflugri þátttöku í alþjóðasamstarfi, ekki síst að friðar- og mannúðarmálum.

Vinstri græn krefjast þess að ríkisstjórnin leggi fram beinar yfirlýsingar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi og frið og efli samstarf á vettvangi Norðurlandanna til að knýja fram friðsamlegar lausnir, standa gegn hervæðingu og stuðla að raunverulegri afvopnun.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search