Samkvæmt lögum Vinstri grænna skulu ályktunum fyrir flokksráðsfundi hreyfingarinnar berast skrifstofu viku fyrir fundinn, eftirfarandi ályktanir bárust skrifstofunni í tæka tíð. Athugið að ályktanirnar eru ekki enn samþykktar og verða ræddar og afstaða tekin til þeirra á flokksráðsfundinum.
Ályktun um stöðu mannréttinda í Bandaríkjunum
Flokksráðsfundur VG, haldinn í Reykjavík 22. febrúar 2025, lýsir yfir djúpum áhyggjum
vegna þróunar mannréttindamála í Bandaríkjunum eftir að Donald Trump tók aftur
við embætti forseta í janúar 2025. Frá því að hann hóf annað kjörtímabil sitt hafa
komið fram vísbendingar um að mannréttindi ýmissa hópa séu í hættu. Einnig
fordæmir fundurinn afskipti auðkýfingsins og fasistans Elon Musk á innanlandspólitík
annarra landa og stuðning hans við öfgahægriflokka í m.a. Þýskalandi og Bretlandi.
Elon Musk hefur veitt öfgahægriflokkunum Alternative für Deutschland og Reform UK
fjárhagslegan stuðning. Jafnframt hefur hann margoft sýnt stuðning við
hugmyndafræði nasista og gerði nýlega nasistakveðju í fjöldafundi Trumps. Hann
hefur núna fengið stórt hlutverk í bandarískum stjórnmálum, en Donald Trump
skipaði hann til að stýra Ráðgjafarstofnun umbóta í opinberri stjórnsýslu, en markmið
stofnunarinnar er að leita leiða til draga úr fjárútlátum ríkisins. Það er óásættanlegt
að ríkasti maður heims sem aðhyllist fasisma gegni slíku hlutverki.
Vegna skipunar Trumps á dómara í Hæstarétt Bandaríkjanna á fyrra kjörtímabili var
réttur kvenna til þungunarrofs verulega skertur eftir að Hæstiréttur felldi úr gildi
dóminn í máli Roe gegn Wade árið 2022. Þetta leiddi til þess að mörg ríki settu
strangar takmarkanir á aðgengi að þungunarrofi, sem hefur haft alvarleg áhrif á
heilbrigði og sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Einnig hafa réttindi hinsegin fólks verið
skert, þá sérstaklega trans fólks, með forsetatilskipunum. Um er að ræða alvarlegt
bakslag í mannréttindabaráttu hinsegin fólks. Þá hefur Trump boðað
innflytjendastefnu sem mun valda ómældri þjáningu stórs hluta fólks sem á það á
hættu að vera vísað úr landi eftir að hafa búið í Bandaríkjunum til lengri tíma.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð fordæmir þessa þróun og hvetur bandarísk
stjórnvöld til að virða og vernda mannréttindi allra einstaklinga, óháð kyni, kynhneigð,
kynvitund eða uppruna. Við stöndum með þeim sem berjast fyrir jafnrétti og
mannréttindum í Bandaríkjunum sem og um allan heim.
UVG
Ályktun um frið fyrir botni Miðjarðarhafs
Flokksráðsfundur VG, haldinn í Reykjavík 22. febrúar 2025, fordæmir og mótmælir með
öllu þjóðarmorðinu á Gaza, framferði Ísraelshers á svæðinu og aðild Bandaríkjanna
sem og annarra Vesturlanda að blóðbaðinu. Ísrael hefur frá upphafi stundað landrán
á palestínsku landi og brotið gróflega á mannréttindum Palestínumanna. Það
vopnahlé sem komist á í upphafi árs er viðkvæmt og staða almennings á Gaza
skelfileg. Síðasta eitt og hálfa árið hefur einkennst af svívirðilegum hernaði og
stríðsglæpum og íbúar heimsbyggðarinnar hafa þurft að fylgjast með morðum á
almennum borgurum, að stórum hluta konum og börnum, fjölskyldum, sjálfboðaliðum
og svo mætti lengi telja. Framferði Ísraels á hernumdu svæðunum á
Vesturbakkanum, þar sem Palestínumenn búa við ofbeldi, ofríki og manngerða
hungursneyð, er viðurstyggilegt. Um er að ræða landránsnýlendustefnu sem virðist
nú eiga að kóróna með hugmyndum Bandaríkjaforseta um „rívíeru Miðausturlanda“ í
eigu Bandaríkjanna. Slíkt tal er ekkert annað en ákall eftir þjóðernishreinsunum. Það
er forkastanlegt að slíkar hugmyndir séu enn viðraðar á 21. öld en þær minna helst á
skelfilegt framferði evrópskra stórvelda á hátindi nýlendutímans. Alþjóðasamfélagið
þarf að taka höndum saman og hafna hugmyndum Bandaríkjaforseta, tryggja
sjálfstæði Palestínu og varanlegan frið á svæðinu fyrir botni Miðjarðarhafs.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð skorar á utanríkisráðherra Íslands að hafa hærra á
alþjóðavettvangi og standa með Palestínu.
UVG
Ályktun um Hvammsvirkjun
Flokksráðsfundur VG, haldinn í Reykjavík 22. febrúar 2025, fordæmir hugmyndir
umhverfisráðherra um að ráðast í sértæka lagasetningu sem keyrir framkvæmd
Hvammsvirkjunar framhjá allri annarri almennri löggjöf, þ.m.t. löggjöf sem ætlað er að
vernda náttúruna. Ráðherra hyggist grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að keyra
Hvammsvirkjun í gegn án nokkurra tafa, með allri þeirri eyðileggingu á náttúru svæðisins
og landslagsheildum sem henni fylgi. Mikilvægt er að vanda vel til verka í allri
lagasetningu í jafn viðkvæmum og umdeildum málaflokki. Liggja þarf fyrir í hvað eigi að
nota öflun frekari orku á Íslandi og út frá því hve mikla orkuöflun eigi að ráðast í á næstu
árum.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð mótmælir því að ráðherra minnist ekki einu orði á
náttúruvernd í samhengi við Hvammsvirkjun, þrátt fyrir að í Þjórsá sé stærsta laxastofn
landsins að finna, auk þess sem virkjunin mun hafa víðtæk áhrif á ásýnd sveitarinnar
sem og vistkerfi árinnar og líffræðilegan fjölbreytileika. Náttúran á alltaf að fá að njóta
vafans.
UVG
Ályktun um umhverfismál og raforkuvinnslu
Flokksráðsfundur VG, haldinn í Reykjavík 22. febrúar 2025, ályktar að auðlindir skuli
vera í þjóðareign. Forðast skal frekari uppbyggingu í orkuframleiðslu þar sem ekki er
hægt að segja að rafmagnsskortur sé á Íslandi þegar stóriðja notar 77% alls
rafmagns á landinu. Hætta steðjar að ósnortinni og viðkvæmri náttúru Íslands vegna
orkuframleiðslu fyrir orkufrekan iðnað. Stóriðja, sér í lagi framleiðsla málma, er í senn
mjög mengandi fyrir loftslagið og á stóran hluta af kolefnisspori Íslands. Langstærsti
flokkurinn sem veldur losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi er iðnaður og
efnanotkun, sem hefur aukist um 122 prósent frá 1990 til 2021. Þá hefur losun frá
staðbundnum iðnaði, þ.e. ál- og kísilverum, aukist um 116% frá árinu 2005 – og
nemur 40% af losun Íslands, ef landnotkun og skógrækt eru ekki reiknuð með. Ekki
er reiknað með að nokkur almennilegur samdráttur verði á losun tengdum þessum
iðnaði í náinni framtíð.
Gagnaver sem eru að stærstum hluta notuð til að grafa eftir rafmynt nota jafn mikið
rafmagn og heimilin í landinu, eða 5%. Tryggja þarf að almenningur hafi aðgang að
raforku framyfir orkufrekan iðnað á borð við málmframleiðslu og gagnaver.
Sé talið nauðsynlegt að fara í frekari orkuöflun, skulu opinberir aðilar sjá um
uppbyggingu í raforkuvinnslu, hvort sem um ræðir vatnsaflsvirkjanir eða vindorkuver,
og skuli þau falla undir rammaáætlun. Áður en hafist er handa skal samþykkja skýrt
regluverk um auðlindagjald, staðsetningu og annað sem að þeim snýr. Vindorkuver
skuli byggjast upp í sátt við íbúa svæðisins, valda sem minnstri sjónmengun, ekki
spilla viðkvæmum náttúruperlum og vera í almannaeign. Mikilvægt er að byggja upp
regluverk og koma málaflokknum í umsjá opinberra aðila hið fyrsta til að koma í veg
fyrir gullgrafaraæði í uppbyggingu vindorkuvera í skjóli slaks regluverks.
Einnig ítreka Vinstri græn nauðsyn þess að stöðva kaup erlendra aðila á jörðum í
þeim tilgangi að auka einkagróða. Á það við um land undir vindorkuver, laxveiðiár,
vatnsauðlindir, efnisnámur og til skógræktar. Eigi slík uppbygging að eiga sér stað,
skal það gerast í umsjá opinberra aðila í sátt við íbúa svæðisins og valda sem
minnstru umhverfisraski, yfirborðsraski, sjónmengun eða öðrum umhverfisspjöllum
eða umbyltingu lands, sem losar mikið magn kolefnis, til að verna viðkvæmt vistkerfi.
UVG
Ályktun um skaðaminnkun og sölu bjargráðalyfja
Flokksráðsfundur VG, haldinn í Reykjavík 22. febrúar 2025, bendir á að slæm andleg
heilsa ungmenna getur haft alvarlegar afleiðingar til framtíðar. Ein afleiðing er meiri
sókn í vímuefnu. Faraldur ópíóíðanotkunar hefur náð til ungmenna og þau eru ekki
upplýst nægilega vel um skaðsemi þeirra. Í kjölfarið eru ungmenni í hættu á
ofskömmtun lyfjanna. Þetta eru lífshættulegar aðstæður sem geta leitt af sér
öndunarstopp og ótímabæran dauða. Algjört bann er þó ekki líklegt til að skila
árangri. Þegar aðgengi er mjög takmarkað er meira hætta á að ólögleg efni rati inn í
landið, eins og fentanyl, sem hefur ollið miklum skaða í Bandaríkjunum. Með
óreiðukenndri og óáreiðanlegri innkomu nýrra ópíóíðaefna á markaðnum er ekki
hægt að treysta á skömmtun ópíóíðanna, sem hefur stórhættulegar afleiðingar og ýtir
undir fleiri dauðsföll ungmenna, sem og annarra. Vinstri græn styðja skaðaminnkandi
úrræði þar sem einstaklingar eru studdir í niðurtröppun og yfirferð á lyfjameðferð
með ópíóíðum. Vinstri græn styðja sölu bjargráðarlyfsins naloxone í lausasölu í
apótekum sem er hægt að grípa í heima þegar í stað við skaðlegum aukaverkunum
lyfjanna og þegar öndunarbæling á sér stað.
UVG
Ályktun um húsnæðismál
Flokksráðsfundur VG, haldinn í Reykjavík 22. febrúar 2025, kallar eftir afgerandi
aðgerðum frá nýrri ríkisstjórn í húsnæðismálum. Setja þarf lögverndað leiguþak sem
verndar leigjendur fyrir óhóflegum og ófyrirséðum hækkunum. Það þarf að koma í
veg fyrir að einkafjárfestar eigni sér fasteignamarkaðinn á Íslandi með öllu. Með því
fer húsnæði landsmanna í vítahring kapítalismans þar sem græðgin á sér engin
takmörk. Það er með öllu óboðlegt fyrir fólk af öllum kynslóðum að þurfa að hafa
miklar fjárhagsáhyggjur vegna húsnæðiskostnaðar. Sporna þarf við að húsnæði sé
nýtt sem fjárfestingarkostur, svo sem með skattlagningu á hagnaði af sölu íbúða sem
ekki eru notaðar til eigin búsetu eiganda sem og aukin fasteignagjöld á aðra eða
þriðju eign.
Það þarf einnig að auðvelda öryrkjum og minna efnuðum einstaklingum að leigja og
eignast húsnæði, t.d. með leiguþaki. Stjórnvöld eiga að skoða af fullri alvöru að setja
á laggirnar nýtt félagslegt eignaríbúðakerfi til að fjölga valkostum á
húsnæðismarkaði. Öruggt húsnæði er að sjálfsögðu mannréttindi.
UVG
Ályktun um umhverfis- og náttúruverndarmál
Flokksráðsfundur VG, haldinn í Reykjavík 22. febrúar 2025, lýsir yfir sérstökum vonbrigðum með stefnu nýrrar ríkisstjórnar í umhverfis- og náttúruverndarmálum sem og þeirri orkustefnu sem sett hefur verið á svið.
Íslensk náttúra og samfélag á annað og betra skilið en gengdarlausar árásir í þágu sérhagsmuna sem kunna sér ekki hóf gagnvart takmörkuðum auðlindum þjóðarinnar.
Andrés Skúlason
Ályktun um aðild Íslands að NATO og varnarsamnings við Bandaríkin
Flokksráðsfundur VG, haldinn í Reykjavík 22. febrúar 2025, telur einsýnt að endurskoða þurfi aðild Íslands að NATO og þá sérstaklega varnarsamninginn við BNA. Þegar stórveldið BNA hótar Grænlandi, næsta nágranna og vinaþjóð Íslands, vopnuðu ofbeldi er ljóst að Íslendingar þurfa að endurmeta hvernig öryggishagsmunum þjóðarinnar er best borgið. Ýmsar aðrar yfirlýsingar núverandi forseta BNA kalla á endurmat á afstöðu og samskiptum við stórveldið í vestri.
Andrés Skúlason, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Pétur Heimisson, Steinar Harðarson
Flokksráðsfundur VG, haldinn í Reykjavík 22. febrúar 2025, bendir á að sveitarfélög landsins standa frammi fyrir sívaxandi fjárhagslegum og samfélagslegum áskorunum þar sem verkefni þeirra hafa aukist án fullnægjandi fjárveitinga frá ríkinu. Sveitarfélög eru grunnstoðir samfélagsins og gegna lykilhlutverki í að tryggja jöfnuð, félagslegt réttlæti og náttúruvernd með síauknu umfangi og regluverki. Til að efla nærþjónustu, draga úr loftslagsáhrifum og styrkja lýðræðislega þátttöku íbúa þarf markvissar aðgerðir og aukið fjármagn til sveitarfélaga.
Sveitarstjórnarráð Vinstri grænna skorar á ríkisstjórn Íslands og Alþingi að tryggja sveitarfélögum þær bjargir sem nauðsynleg eru til að mæta sívaxandi áskorunum. Til að stuðla að sjálfbærri þróun sveitarfélaga krefjumst við eftirfarandi aðgerða:
– Sveitarfélög fái fulla endurgreiðslu á virðisaukaskatti frá ríkinu vegna innviðauppbyggingar á lögboðnum verkefnum.
– Aukin fjárframlög frá ríkinu verði tryggð til að mæta aukinni þjónustuþörf íbúa.
– Gistináttagjald renni til þess sveitarfélags hvar gistináttaeining er seld.
– Lýðræðisleg þátttaka verði efld með rafrænum kosningum, auknu samráði og aðkomu íbúa að ákvörðunum um nærþjónustu.
– Leikskólastigið verði skilgreint og lögfest sem hluti af menntakerfinu á ábyrgð sveitarfélaganna með skýrri fjármögnun og jöfnum tækifærum fyrir öll börn.
– Að bætt kjör og starfsaðstæður kennara og starfsfólks í leik- og grunnskólum verði tryggð og að staðið verði við samkomulag um jöfnun launa á markaði frá 2016.
– Öflug heilbrigðisþjónusta verði tryggð í dreifbýli, meðal annars með sterkari fjármögnun heilsugæslu og betra aðgengi að sérfræðiþjónustu.
– Tryggja þarf óraskaða starfsemi sjúkraflugs um Reykjavíkurflugvöll en um 650 sjúklingar eru fluttir þangað árlega af landsbyggðinni með sjúkraflugi til að sækja bráðaþjónustu á Landspítala.
– Að sveitarfélög verði leiðandi í að tryggja hækkun lágmarkslauna, jafna launamun kynjanna og skapa fyrirmyndarvinnustaði í opinberri þjónustu, m.a. með því að bjóða fólk með skerta starfsgetu til starfa og skapa því starfsumhverfi við hæfi.
– Almenningssamgöngur verði efldar á landsvísu með skýrri lagalegri umgjörð og stöðugri fjármögnun, bæði fyrir stór verkefni á borð við Borgarlínu og fyrir nauðsynlega uppbyggingu samgangna í dreifbýli. Kolefnishlutlausir samgöngumátar þurfa að verða raunhæfur valkostur um allt land.
– Gæta að fyrirsjánleika í breytingum á sköttum og gjöldum, ekki síst hvað varðar ferðaþjónustugreinar.
– Unnið verði að úrbótum á innviðaskuld í samgöngum um allt land með því að auka fjárframlög til málaflokksins í hlutfalli við verga landsframleiðslu. Þannig verði unnt að ráðast í jarðgangagerð og tryggja öruggar og áreiðanlegar samgöngur fyrir alla landsmenn.
– Sett verði skýr markmið um kolefnishlutleysi sveitarfélaga með bindandi aðgerðaáætlunum og auknum stuðningi við notkun endurnýjanlegrar orku.
– Byggingar sveitarfélaga verði hannaðar og endurnýjaðar með sjálfbærni og orkunýtingu að leiðarljósi.
– Viðkvæm náttúrusvæði verði varin með skýrri stefnu um sjálfbæra landnýtingu.
– Auðlindir sveitarfélaga, þar á meðal orkuauðlindir og vatn, skulu vera í almannaeigu og sveitarfélög njóta réttmæts arðs af þeim. Ekki má selja þær erlendum aðilum eða einkavæða í þágu skammtímahagnaðar.
Sveitarstjórnarráð Vinstri grænna hvetur stjórnvöld til að tryggja sveitarfélögum nauðsynleg úrræði, fjármagn og lagaheimildir til að vinna í þágu íbúa, loftslags og náttúru. Aðeins með öflugum og sjálfbærum sveitarfélögum getum við byggt upp samfélag byggt á jöfnuði, lýðræði og umhverfisvernd.
Sveitarstjórnarráð VG