Á að „útbía“ landið meira og minna með forljótum risastórum vindmyllum?
Þegar umræða hófst fyrir nokkrum árum um að vindmyllur væru hugsanlegur virkjunarkostur á Íslandi gaf ég mér að svo smekklaus værum við ekki að menga með þeim náttúru landsins. Ég hef séð vindmyllur alloft erlendis og veit að umhverfið batnar ekki með tilkomu þeirra. Þar er ekki til staðar heitt eða kalt vatn til að virkja sem hugsanlega er ástæðan. Hér eigum við við næga virkjanakosti sem með góðum vilja og í leit að sanngjörnu samkomulagi má virkja, án þess að eyðileggja náttúru landsins og valda mörgum sársauka.
Nú lesum við að fljótfær ungur ráðherra ætli sér að bera ábyrgð á fyrsta vindorkuverinu á Íslandi í óspilltri náttúru með 200/250 metra háum turnum. Svo er komið að landeigendur og sveitarfélagið samþykkir gjörðina. Nú eru tugir staða um allt land sem verið er að skoða fyrir hugsanleg vindorkuver (38!) Það er varla gert í fagurfræðilegum tilgangi og í þágu umhverfisins!
Það hefur verið á dagskrá stjórnvalda að marka stefnu um hvort við viljum þennan virkjanakost og ef þá með hvaða skilyrðum. Þeirri vinnu er ekki lokið. Það truflar ekki ráðherrann sem montar sig af því að eyða minni fjármunum í umhverfismál, að hlaupa yfir þennan framgangsmáta: Ég má þetta, ég ræð.
Garpsdalsfjall rís yfir Gilsfjörð og vindorkuver munu verða mjög áberandi í landi og sjást víða að. Þetta er afleitur staður fyrir vindorkuver. Ég hef lesið að þetta væri í þekktri flugleið arnarins. Ég veit nokkuð um tign og fegurð íslenskrar náttúru, hef meðal annars ferðast um landið á hestum í áratugi, verið leiðsögumaður og fararstjóri í hestaferðum með erlenda gesti og veit um skoðanir og tilfinningar margra þeirra: Víð sýn, óspillt land, margbreytileg náttúra og veðurfar, friður og ró, það er Ísland. Að sjá og heyra í vindmyllum er ekki á óskalista erlendra ferðamanna. Það hefur verið kannað. Að auki bý ég að því að hafa verið alla ævi að skoða landið og tign þess eftir ýmsum myndrænum leiðum. Er í dag 87 ára myndlistamaður, hönnuður og fyrrverandi kennari í listaskólum landsins. Hvaðan kemur réttur eins eða fleiri landeigenda sem eiga sitt takmarkaða land að „útbía“ sýn annarra á landið? Vindmyllur eru ljótar, allt of stórar og fara illa í umhverfinu. Þær eru illa hannaðar og hávaði, suð og hvinur fylgir þeim. Þær menga og dreifa plastögnum úr spöðunum. Þær hafa skaðleg áhrif á fuglalíf.
Eiga þessir landeigendur rétt á að nýta vindinn á þennan hátt á kostnað annarra?
Eiga þeir vindinn?
Eftir því sem ég veit best eru að baki stöndug erlend fyrirtæki með „keypta“ íslenska aðstoðarmenn sem vinna að því að sannfæra okkur og landeigendur með gylliboðum. Það er talið að líftími þessara turna og spaða sé 10 til 15 ár. Þeir eru gerðir úr óvistvænu, óendurnýtanlegu plastefni. Landið umhverfis er markað vegaslóðum og miklar steyptar járnbundnar undirstöður og lagnir til og frá hverju fyrirbrigði. Hver verða áhrifin á gróður og dýralíf? Hvaða trygging er fyrir því að þetta verði fjarlægt þegar komið er að lokum, gróðinn ekki nægur og kominn tími á endurbyggingu? Trúum við því að þeir beri þá virðingu fyrir íslenskri náttúru sem þarf til að ganga sómasamlega frá?
Ég ætla að ljúka þessu og vitna til umsagna sem þrjár konur hafa látið falla. Ég trúi því að þær viti hvað þær eru að segja.
1. „Íslenska náttúruumhverfið er að breytast í meira markaðsumhverfi“. (Hrund Logadóttir, fyrrverandi orkumálastjóri nú þingmaður).
2. „Inngrip í íslenskt umhverfi og landslag af stærðargráðu sem þekkist ekki fyrr“. (Ásdís Hlökk Theódórsdóttir hjá Skipulagsstofnun).
3. „Landið undir vindmyllur er auðlind sem við þurfum að fara varlega með“. (Guðrún Pétursdóttir, fyrrverandi formaður „rammaáætlunar“).
Ætlar „umhverfisflokkurinn“ Samfylkingin með sinn „umhverfisráðherra“ að bera ábyrgð á þessu ótrúlega skemmdarverki? Ætla vinir mínir í þeim flokki að láta þetta yfir okkur ganga?
Þetta er ekki í lagi.
Gísli B. Björnsson, Höfundur er teiknari FÍT. Stofnfélagi VG, skógarbóndi og heiðurshafi íslensku hönnunarverðlaunanna 2024.