PO
EN

Hröð og einföld yfirsýn yfir þjónustu um allt land með nýju þjónustukorti

Deildu 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynntu nýtt gagnvirkt þjónustukort á blaðamannafundi í Þjóðminjasafninu í dag. 

Kortið sýnir almenna þjónustu hins opinbera og einkaaðila um land allt með myndrænum hætti og hefur Byggðastofnun opnað aðgang að kortinu. Markmiðið með kortinu er að auka og bæta aðgengi almennings að upplýsingum um þjónustu víðsvegar um landið og auka tækifæri til nýsköpunar og frekari stefnumótunar á sviði byggðamála.

Útgáfa Þjónustukortsins er í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar ásamt því að vera ein af aðgerðum byggðaáætlunar fyrir árin 2018 til 2024. Með kortinu og gögnunum sem það byggir á mun fást hröð og einföld yfirsýn yfir hvaða þjónusta er veitt hvar á landinu.

Byggðastofnun óskar eftir ábendingum, athugasemdum og leiðréttingum við kortið. Hægt er að koma skilaboðum á framfæri á ábendingarhnappi á kortinu. Þá verður stöðug uppfærsla á kortagögnum þar sem þjónusta breytist og færist til, nýir þjónustuþættir bætast við og aðrir hætta. Í þessu ljósi er gott og virkt samstarf við almenning, fyrirtæki og stofnanir lykilatriði í mótun kortsins og unnið verður að því út þetta ár að bæta við upplýsingum um þjónustuþætti inn á kortið.

Upplýsingar um margháttaða þjónustu á vegum ríkisins eru þegar komnar inn á kortið. Einnig upplýsingar um ýmsa þjónustu á vegum sveitarfélaga og einkaaðila. Unnið er að því að skrá fleiri þjónustuþætti sveitarfélaga inn á kortið og verður í framhaldinu lögð áhersla á að skrá þjónustu á vegum einkaaðila.

Upplýsingar á kortinu verða uppfærðar reglulega og komið verður á tengingum við aðra opinbera gagnagrunna þar sem þess er kostur. Þá er stefnt að því að hægt verði að sjá hversu langt er í tiltekna þjónustu út frá gefinni staðsetningu. Einnig stendur til að þýða flokkaheiti í kortinu yfir á önnur tungumál svo kortið verði aðgengilegt fyrir sem flesta.

Mikil áhersla er lögð á að gögnin sem safnast séu opin og fljótlega verður opnuð niðurhalssíða þar sem hægt verður að sækja gagnasett sem liggja að baki kortinu. Þannig nýtast upplýsingarnar öllum almenningi endurgjaldslaust, s.s. til ýmis konar nýsköpunar í atvinnulífinu eða úrvinnslu og miðlunar t.d. á sviði ferðaþjónustu, opinberrar stjórnsýslu eða í menntakerfinu.

Fullgert verður þjónustukortið fyrsta kort sinnar tegundar sem veitir aðgang að heildstæðum þjónustuupplýsingum um land allt.

Kortið má finna á www.þjónustukort.is

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search