PO
EN

Birgir missir marks

Deildu 

Í umræðum á Alþingi við Miðflokksmenn birtist oft lítil virðing þeirra fyrir staðreyndum en mikill áhugi á ýktum einföldunum. Skrif Birgis Þórarinssonar um skattaáþján ríkisstjórnarinnar missa marks. Hækkað kolefnisgjald, gjald vegna sérstakra gerða kæli- og frystitækja og tiltekið sorpgjald eru tekjur, merktar ákveðnum málaflokkum, ólíkt sköttum. Öll gjöld og allir skattar eru ekki merki um óréttlæti eða áþján, öfugt við staðhæfingar Birgis. Lækkun sumra skatta í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er auk þess staðreynd, t.d. tryggingargjalds og tekjuskatts, með nýju skattþrepi. Birgir skautar framhjá því sem hentar. Hann tengir heldur ekki umræddar þrjár gjaldaviðbætur við einn mikilvægasta málaflokk samtímans, heldur höfðar að popúlískum hætti til pyngju þeirra sem búa úti á landi og/eða reka fyrirtæki. Loftslagsmál eru líka peningamál, háttv. þingmaður! Margvísleg vandkvæði þar kosta jafnt almenning sem fyrirtæki, þéttbýlis- sem dreifbýlisfólk verulegt fé, þegar allt kemur til alls. Í öllum tilvikum er um að ræða fjárheimtu sem fer, ásamt meira fé, í að andæfa loftslagsbreytingum og kosta aðlögun að þeim.

Kolefnisgjaldið er einn lyklanna

Kolefnisgjald leggst á fólk og fyrirtæki eftir notkunarmagni kolefniseldsneytis. Aflar fjár til mótvægis umhverfisvandans og hvetur til orkuskipta. Misjafnt er hvernig það leggst á landsbyggð móti þéttbýli, á fólk og fyrirtæki eftir efnahag; líkt og bensín – og olíugjald. Gjaldið er fremur lágt (meðaltal um 10 kr/ltr) eða 20 þús. krónur á meðalbíl sem ekið er 20.000 km á ári. Ein króna á kílómetra. Á móti eru vörugjöld lækkuð á bíla sem losa koldíoxíð undir tilteknu meðaltali, undanskil vörugjalda á „græna“bíla framlengd og haft uppi flutningsjöfnunargjald á bensín og olíur. Fólksbílar og vegsamgöngur losa nærri 1000 þús. tonn á ári af kolefnisgasi; fólksbílar um 700 þús. tonn. Það er fjarri því að vera 6% af manngerðri losun sem fellur undir Parísarsamkomulagið (4,5 milljónir tonna). Þá er ótalin losun frá stóriðju, utanlandsflugi og illa förnu gróðurlendi eða framræstu votlendi enda telur það ekki í skatta/gjaldabókhaldi ríksins. Enn fráleitari er sá útreikningur Birgis, eða staðleysa, að 90% kolefnisgjalds leggist á bíleigendur. Siglingar íslenskra skipa og báta losa um 700 þúsund tonn á ári og af þeim eru greidd kolefnisgjöld. Skaði af völdum annarra gasa og sóts er þekktur og má líta svo á að kolefnisgjaldið gangi einnig til að lina hann og minnka losun.

Kæli- og frystitæki

Birgir heldur því leyndu að gjöld á klæli- og frystitæki varða ósoneyðandi, flúórrík tæki.

Gjöldin eiga að hvetja til skipta og ganga einnig til réttrar eyðingar úreltra tækja og hættulegra gasa. Sennlega eru fáir tilbúnir til þess að mótmæla umhverfisstefnu sem

gengur gegn áframhaldandi notkun tækjanna og flýtir úreldingu þeirra.

Umhverfismál eru okkar allra

Meðferð úrgangs kostar samfélagið marga milljarða á ári. Hún er í allverulegum ólestri á landsvísu, t.d. á Suðurlandi, eins og Birgir veit.  Of mikil urðun, of lítil flokkun, of lítil endurnýting hér á landi, og eftir útflutning, og of langar flutningsleiðir eru staðreyndir sem Birgi þekkir. Langt er seilst að hallmæla auknum tekjum ríkissjóðs sem verður m.a. að kosta að hluta endurskipulagningu á úrgangskerfinu, auðvelda nýsköpun, greiða enduvinnslugjald fyrir vökvaumbúðir og á endanum styrkja minni sveitarfélög, líkt og vegna fráveitna. Hvernig heldur þingmaðurinn að umhverfisvernd skili sér, skynsamleg meðferð úrgangs gangi fyrir sig eða loftmengun af hans völdum verði minnkuð? Hann hefur úrelta sýn í loftslagsmálum og elur á sundrungu milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search