Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er tilnefnd til verðlauna bresku hugveitunnar Chatham House árið 2019. Auk hennar eru tilnefndir sjónvarpsmaðurinn og líffræðingurinn Sir David Attenborough og Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu.
Tilnefningarnar voru kynntar í gær. Samkvæmt vefsíðu Chatham House er Katrín tilnefnd fyrir framgöngu sína við mótun stefnu Íslands á sviði jafnréttis kynjanna og þátttöku kvenna í atvinnulífinu.
Attenborough er tilnefndur fyrir að vekja umræðu meðal almennings um plastmengun í hafinu með sjónvarpsþáttum sínum Blue Planet II sem sýndir voru á RÚV.
Ahmed hlýtur tilnefningu fyrir baráttu sína fyrir bættum stjórnarháttum, málfrelsi og lýðræði í heimalandi sínu Eþíópíu. Auk þess fyrir að binda enda á áratugalangar deilur við nágrannaríkið Erítreu en þau undirrituðu friðarsamkomulag í fyrra.
Chatham House er bresk hugveita í alþjóðamálum og hefur veitt verðlaunin frá 2005 til einstaklinga sem lagt hafa sitt af mörkum í alþjóðamálum.