PO
EN

Kolefnisfótsporið af heimsókn Pence

Deildu 

Það hefur líklega ekki farið fram hjá landsmönnum að varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, heimsækir Ísland í dag, 4. september. Varla hefur verið hægt að lesa annað í fréttum undanfarna daga og jafnvel vikur en hvar hann verður og hvern hann hittir, eða hittir ekki.

Í hringiðu þessarar umræðu fórum við að velta fyrir okkur hversu stórt kolefnisfótspor þessarar heimsóknar verður. Aukin vitundarvakning hér á landi um loftslagsbreytingar og kolefnisfótspor ferðalaga okkar hefur endurspeglast í breyttum venjum okkar Íslendinga, en hið sama verður ekki sagt um þennan tiltekna gest. Það má vera að það komi engum á óvart í ljósi yfirlýsinga hans sjálfs og stefnu Bandaríkjanna þegar kemur að loftslagsmálum, en eitt af fyrstu verkum núverandi Bandaríkjastjórnar var að draga Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu.

Með varaforsetanum í för hér á landi eru eiginkona hans og starfslið. Starfsliðið sem fylgir varaforsetanum er engin smásmíði og telur fleiri einstaklinga en nokkur íslensk sveitarfélög geta státað af. Hafa þau dvalið á landinu í einhverja daga til að undirbúa komu Pence. Fréttir hafa verið fluttar af því að hópurinn hafi tekið á leigu um sextíu leigubíla auk þess sem vænn bílafloti á vegum Bandaríkjanna á Íslandi hefur staðið þeim til boða. Allir þessir bílar hafa staðið í röðum fyrir utan hótel og aðra viðkomustaði hópsins.

Varaforsetinn sjálfur verður töluvert á ferðinni í dag og því fylgja lokanir á vegum víða á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu, sem ekki hefur verið hægt að gefa út nákvæmar tímasetningar á. Slíkum lokunum á vegum fylgir fjöldi bíla sem munu sitja fastir þegar þeir reyna að komast leiðar sinnar með tilheyrandi útblæstri og mengun.

Auk þessa gríðarstóra bílaflota fylgja hópnum hið minnsta sjö flugvélar, þrjár af gerðinni CV-22B Osprey, tvær C-130 Hercules, ein Lockheed C-5 Galaxy auk Air Force 2 vélarinnar sem flytur sjálfan varaforsetann milli landa. Að lokum hefur fengist staðfest að tvær sérútbúnar sjúkraþyrlur af gerðinni Sirkorsky H-60, sem eru í eigu bandaríska hersins, séu á landinu vegna heimsóknar Pence.

Er þetta ekki bilun? Lokanir stofnæða, hundrað manna starfslið, tugir bíla, sjö flugvélar, tvær þyrlur. Og allt vegna eins manns sem stoppar ekki einu sinni í 12 klukkustundir á landinu. Þegar almenningur á Íslandi er, réttilega að okkar mati, hvattur til að breyta sínum ferðum og venjum, orðið flugviskubit er á allra vörum og við þorum varla að viðurkenna að við keyrðum út á land á bensínbíl um daginn, ætlum við þá bara að taka því þegjandi að hingað komi erlendur gestur á sjö flugvélum?

Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm og Sigrún Birna Steinarsdóttir

Höfundar sitja í framkvæmdastjórn Ungra vinstri grænna

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search