PO
EN

Nýtt loftslagsráð – nýr fulltrúi ungs fólks

Deildu 

Nýtt loftslagsráð kom saman í fyrsta sinn í gær en því er ætlað að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum á Íslandi. Þetta er í annað sinn sem loftslagsráð er skipað.

Með breytingum sem Alþingi samþykkti á lögum um loftslagsmál í vor er loftslagsráð lögfest og tiltekið að í ráðinu skuli eiga sæti fulltrúar frá tilteknum aðilum en að auki er gert ráð fyrir að umhverfis- og auðlindaráðherra hafi heimild til að skipa fulltrúa annarra, sem þörf er talin á að eigi sæti í ráðinu á hverjum tíma. Ráðherra bætir nú inn í ráðið fulltrúa ungs fólks sem undanfarið hefur m.a. beitt sér í loftslagsmálum.

Einnig bætast við fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands og Viðskiptaráði Íslands, auk þess sem fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið fjölgað í tvo.

Auk formanns, varaformanns og framangreindra fulltrúa sitja í loftslagsráði fulltrúar frá Bændasamtökum Íslands, Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð, Neytendasamtökunum, háskólasamfélaginu, Samtökum atvinnulífsins og umhverfisverndarsamtökum.
Sem fyrr er formaður ráðsins Halldór Þorgeirsson, fyrrum yfirmaður hjá skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC), skipaður af umhverfis- og auðlindaráðherra. Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, er áfram varaformaður og skipuð af umhverfis- og auðlindaráðherra.

Í ráðinu eiga að auki sæti:

  • Sigurður Thorlacius, fulltrúi ungs fólks, skipaður af umhverfis- og auðlindaráðherra,
  • Maríanna Traustadóttir, sérfræðingur, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands,
  • Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands,
  • Jóhanna Harpa Árnadóttir, stjórnarmaður, tilnefnd af Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð,
  • Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, prófessor, tilnefnd af samstarfsnefnd háskólastigsins,
  • Steingrímur Jónsson, prófessor, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins,
  • Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur, tilnefndur af Neytendasamtökunum,
  • Hrefna Karlsdóttir, sérfræðingur, tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins,
  • Hrönn Hrafnsdóttir, verkefnisstjóri, tilnefnd af Samtökum íslenskra sveitarfélaga,
  • Ragnar Frank Kristjánsson, sviðsstjóri, tilnefndur af Samtökum íslenskra sveitarfélaga,
  • Árni Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, tilnefndur sameiginlega af umhverfisverndarsamtökum,
  • Ragnhildur Freysteinsdóttir frá Skógræktarfélagi Íslands, tilnefnd sameiginlega af umhverfisverndarsamtökum,
  • Gunnar Dofri Ólafsson, lögfræðingur, tilnefndur af Viðskiptaráði Íslands.

Loftslagsráði er m.a. ætlað að veita ráðgjöf um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, aðgerðir til að auka kolefnisbindingu og aðlögun að loftslagsbreytingum. Þá hefur það einnig það hlutverk að rýna áætlanir stjórnvalda sem snerta loftslagsmál; hafa yfirsýn yfir miðlun fræðslu og upplýsinga um loftslagsmál til almennings, fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga; og rýna tillögur sem berast frá fagstofnunum um vöktun og rannsóknir sem tengjast loftslagsbreytingum.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.