Á síðasta þingi, 149. löggjafarþingi, samþykkti Alþingi nokkur lagafrumvörp sem ég lagði fyrir þingið. Frumvörpin innihéldu lagalegar úrbætur og nýmæli á ýmsum sviðum heilbrigðiskerfisins, auk þess sem þingsályktunartillaga um nýja heilbrigðisstefnu til 2030 var samþykkt.
Fyrst má nefna frumvarp til breytinga á lögum um sjúkratryggingar, til að bregðast við nýjum persónuverndarlögum. Frumvarp sem felur í sér breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um sjúkratryggingar var samþykkt, en með samþykkt þess var tryggt að forgangsröðun þeirra sem þurfa á dagdvöl eða dvalarrými að halda verði byggt á faglegu heilsufarsmati, óháð aldri.
Alþingi samþykkti einnig frumvarp mitt sem kveður á um að ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum sé heimilt að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Frumvarp til laga um ófrjósemisaðgerðir var samþykkt, þar sem sjálfsforræði til að taka ákvörðun um slíkar aðgerðir var tryggt og aldursmörk umsækjenda lækkuð.
Að síðustu má nefna lagafrumvarp um þungunarrof sem samþykkt var síðastliðið vor. Með samþykkt laganna höfum við á Íslandi eina framsæknustu löggjöf hvað varðar sjálfsákvörðunarrétt kvenna þegar kemur að þungunarrofi.
Þingsályktunartillaga um heilbrigðisstefnu til 2030 var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Ég er sannfærð um að stefnan verður okkur leiðarvísir við uppbyggingu á enn betra heilbrigðiskerfi til framtíðar.
Nú þegar 150. löggjafarþing hefur verið sett liggja fyrir ný verkefni. Fyrst má nefna nokkur verkefni sem tengjast innleiðingu heilbrigðisstefnu. Næsta vor verður lögð fram á Alþingi aðgerðaáætlun heilbrigðisstefnu til næstu fimm ára. Frumvarp til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu verður lagt fram, m.a. til þess að samræma lögin nýsamþykktri heilbrigðisstefnu, auk þess sem tillaga til þingsályktunar um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni verður lögð fram á Alþingi í vor.
Frumvarp til nýrra lyfjalaga verður lagt fram í haust og þá mun ég einnig leggja fram tillögur að breytingum á lögum um ávana- og fíkniefni, þar sem lagt verður til að komið verði á fót neyslurými þar sem neytendum vímuefna verður útveguð örugg aðstaða til neyslu.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar verður lagt fram, með það að markmiði að einfalda stjórnskipan stofnunarinnar, auk þess sem frumvarp til laga um breytingu á lögum um lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga, og lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði verður lagt fram.
Hér hafa verið nefnd dæmi um lagafrumvörp á þingmálaskrá minni. Frumvörpin hafa öll það markmið að styrkja núverandi heilbrigðiskerfi og stuðla að heildstæðari og betri heilbrigðisþjónustu.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.