PO
EN

Almenningssamráð um endurskoðun stjórnarskrár

Deildu 

Vakin er athygli á almenningssamráði um endurskoðun stjórnarskrárinna á vefnum betraisland.is

Róbert Bjarnason, framkvæmdastjóri, „Íbúar – Samráðslýðræði ses.“ sem vinnur að samráðsverkefninu með Háskóla Íslands, vekur athygli á vefnum, sem styður við áform stjórnvalda um að endurskoða stjórnarskrána að hluta á þessu kjörtímabili í samstarfi allra flokka á þingi og í víðtæku almenningssamráði.

Róbert segir í bréfi til VG. „Við hvetjum ykkur til þess að kynna þetta samráð vel fyrir ykkar félagsmönnum, það er mikilvægt að sem breiðastur hópur taki þátt. Og fyrir stjórnmálamenn er þetta góður vettvangur til þess að tengjast beint við kjósendur á áhrifaríkan og einfaldan hátt.

Hér er slóðin sem við hvetjum ykkur til þess að deila með félagsmönnum ykkar á póstlistum, Facebook, Twitter eða annarstaðar sem á við: https://stjornarskra-2019.betraisland.is

Samráðið byggir á þeim skýra vilja almennings sem hefur verið áberandi síðustu 11 ár – frá hruni – að almennir borgarar eigi að koma meira að stefnumótun samfélagsins. Háskólinn og Betra Ísland vilja leggja sitt af mörkum til að þetta nýja ferli sé bæði áhrifamikið og trúverðugt og gefi öllum færi á að láta sína rödd heyrast: Stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að hlusta á almenning í þessari nýju atrennu að endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Nú hefur hálf kynslóð vaxið úr grasi síðan almenningur hafði síðast aðkomu að hugsanlegum breytingum á stjórnarskrá, heimurinn heldur áfram að breytast hratt og það er mikilvægt að Íslendingar geti unnið að breytingum á stjórnarskrá í sátt núna og í framtíðinni. 

Stjórnarskráin er sameiginleg eign okkar allra og verður að vera hafin yfir pólitískt dægurþras.  Flest bendir til að Íslendingar séu meira sammála en ósammála um flest sem þarf að endurskoða. En það þarf að rökræða margt og finna hugmyndir að bestu útfærslum. Betra Ísland vefurinn er hannaður með það fyrir augum að auðvelt sé að setja fram og rökstyðja skýrar og greinargóðar hugmyndir og tillögur. Þannig drögum við fram innsæi og þekkingu almennings en minnkum hættu á innihaldslausu þrasi og eineltistilburðum. 

Samráðsvefurinn er unninn í samstarfi Öndvegisverkefnisins Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð við Háskóla Íslands og Íbúa – Samráðslýðræði ses. – stofnun sem  ekki er rekin í hagnaðarskyni en hefur það markmið að tengja saman almenning og stjórnvöld með nútímalegum aðferðum. Stofnunin rekur samráðsmiðlana Betra Ísland og Betri Reykjavík á Íslandi og aðra samráðsmiðla í yfir 20 löndum t.d. fyrir New Jersey fylki, norsku neytendasamtökin og skoska þingið.“

Bestu kveður,

Róbert Bjarnason

Framkvæmdastjóri, Íbúar – Samráðslýðræði ses.

Sími: 6944411

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search