Á dögunum skrifaði Björn Bjarnason langa grein og heldur sundurlausa þar sem hann tvinnaði saman útleggingu sína á kosningaúrslitum í þýska sambandslandinu Thüringen og nýlegar umræður á Alþingi um stækkun Nató. Ástæða þess að dómsmálaráðherrann fyrrverandi kýs í greininni að leggja lykkju á leið sína alla leið suður til Þýskalands virðist helst vera sú að tengja afstöðu Vinstri grænna til Nató við þýska flokkinn Die Linke. Nærtækari samanburður hefði þó verið að benda á róttækir vinstriflokkar á öllum Norðurlöndunum átta eru andvígir Nató-aðild.
Það voru umræður og atkvæðagreiðsla um aðild Norður-Makedóníu að Nató sem urðu kveikjan að skrifum Björns og leiddu hann að þeirri niðurstöðu að VG sé úreltur flokkur og tímaskekkja. Tilefnið var að allir þingmenn Vinstri grænna og nokkrir úr þingflokki Pírata sátu hjá í atkvæðagreiðslu um stækkunina. Afstaða Vinstri grænna var í samræmi við fyrri afgreiðslur á sambærilegum málum, nú síðast þegar Svartfellingum var veitt aðild að bandalaginu vorið 2016. Þá sem nú áréttaði VG þá skoðun sína að einhver stærstu mistök seinni tíma á sviði alþjóðamála hefðu verið að nýta ekki tækifærið við lok kalda stríðsins til að leggja niður Atlantshafsbandalagið.
Björn hnýtir sérstaklega í félaga minn, Steinunni Þóru Árnadóttur, fyrir að benda á hið augljósa: að hagsmunir hergagnaframleiðenda séu að miklu leyti drifkrafturinn að baki útþenslu og viðhaldi Nató. Nató-aðildin er sú svipa sem Bandaríkjastjórn notar á bandalagsríki sín til að þrýsta á þau að auka framlög sín til vígbúnaðarmála. Hagsmunirnir sem þar liggja að baki eru gríðarlegir, eins og ekki ætti að þurfa að útskýra fyrir jafnmiklum áhugamanni um vígvæðingu og Birni Bjarnasyni.
Björn telur að andstæðingar Nató í dag séu fastir í köldu stríði, en kýs sjálfur að líta fram hjá þeim breytingum sem orðið hafa á Atlantshafsbandalaginu frá lokum kalda stríðsins. Til að skapa sér hlutverk hefur bandalagið í vaxandi mæli breytt sér í árásargjarnt hernaðarbandalag sem þvælir sér í hver hernaðarátökin á fætur öðrum utan landamæra sinna. Nató er flækt í endalausu stríði í Afganistan sem hefur leitt til ómældra þjáninga þessa stríðshrjáða lands. Nató stofnaði til stríðs í Líbíu sem lagði innviði þess lands í rúst og stuðlaði að flóttamannabylgju til Evrópu sem enn sér ekki fyrir endann á. Nató á í nánu hernaðarsamstarfi við Sádi-Arabíu og Ísrael sem hvort í sínu lagi standa fyrir stórfelldum mannréttindabrotum í Jemen og Palestínu. Um Natóríkið Tyrkland þarf svo fæst orð að hafa. Að ræða Nató árið 2019 en horfast ekki í augu við þennan veruleika er í besta falli veruleikafirring.
Nató er sömuleiðis kjarnorkuvopnabandalag, sem áskilur sér rétt til beitingar kjarnavopna að fyrra bragði. Aðildarríki bandalagsins hafa sameiginlega staðið gegn metnaðarfullum afvopnunarsamningum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eins og sáttmálanum um bann við kjarnavopnum. Á sama tíma hafa helstu forysturíki Nató grafið undan mikilvægum sáttmálum á borð við samninginn um bann við gagneldflaugakerfum og samninginn um bann við meðaldrægum kjarnaflaugum. Nýjustu fregnir frá Bandaríkjunum benda til að Trump forseti hyggist setja endurnýjun SALT-samninganna í uppnám.
Aðild Norður-Makedóníu að Nató var samþykkt með þorra atkvæða á dögunum. Umræðurnar um málið voru frjóar og áhugaverðar. Alltof sjaldan gerist það að þingmenn ræði af alvöru grundvallaratriði á sviði varnar- og öryggismála. Sá málaflokkur er því miður alltof oft tekinn út fyrir sviga þegar kemur að pólitískri umræðu. Þetta er óæskileg þróun, eins og Björn Bjarnason ætti að geta verið sammála mér um – þótt líklega deilum við fáum öðrum skoðunum í þessum málaflokki. Í því skyni vil ég benda á frumvarp mitt sem miðar einmitt að því að auka aðkomu Alþingis að ákvörðunum um hernaðartengd málaefni, sem gerir ráð fyrir að Alþingi þurfi að samþykkja allar meiriháttar hernaðarframkvæmdir og viðauka við varnarsamninginn við Bandaríkin. Það er í takt við eðlilega kröfu samtímans um lýðræðislega umræðu, en ekki þau úreltu viðhorf til hernaðarbandalags sem því miður einkenna málflutning Björns.