PO
EN

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að auka traust á íslensku atvinnulífi

stjórnarráð

Deildu 

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að grípa til eftirfarandi aðgerða í því skyni að auka traust á íslensku atvinnulífi:

1. Auka gagnsæi í rekstri stærri óskráðra fyrirtækja
Undirbúningur er hafinn að lagafrumvarpi um ríkari upplýsingaskyldu hlutfallslega stórra fyrirtækja sem geta haft kerfislæg áhrif í íslensku efnahagslífi. Til skoðunar er að gera ríkari kröfur til slíkra fyrirtækja um upplýsingar um rekstur, efnahag og góða stjórnarhætti. Meðal annars er höfð hliðsjón af kröfum sem gerðar eru til fyrirtækja sem skráð eru í kauphöll. Er þetta gert til að auka gagnsæi um starfsemi þessara fyrirtækja og tryggja betur heilindi og orðspor íslensk atvinnulífs. Þá er þetta í samræmi við nýlega ráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, AGS. Þessi vinna er til viðbótar við fyrirhugað frumvarp á þingmálaskrá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um breytingar á lögum um ársreikninga til að tryggja gagnsæi í upplýsingagjöf í reikningsskilum stórra óskráðra fyrirtækja í samræmi við tilskipun ESB.

2. Auka gagnsæi í rekstri stórra sjávarútvegsfyrirtækja
Þær kröfur um aukið gagnsæi sem koma fram í 1. tölulið munu til fyrirtækja í öllum atvinnurekstri. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur óskað eftir því að við þessa vinnu verði tekið til sérstakrar skoðunar hvort gera þurfi enn ríkari kröfur um gagnsæi til stærri sjávarútvegsfyrirtækja.

3. Stuðla að úttekt og úrbótum á fiskveiðum á alþjóðavettvangi
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun hafa frumkvæði að því að Alþjóðamatvælastofnunun (FAO) vinni úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir þ. á m. í þróunarlöndum. Á grundvelli úttektarinnar vinni FAO tillögur til úrbóta í samvinnu við aðrar alþjóðlegar stofnanir sem vinna að heilbrigðum viðskiptaháttum, gegn spillingu, mútum og peningaþvætti.

FAO er stærsta alþjóðlega stofnunin sem sinnir reglubundnu starfi hvað varðar aðgerðir til að bæta stjórn fiskveiða og þróun sjávarútvegs á heimsvísu. Á vettvangi stofnunarinnar hafa verið gerðir alþjóðasamningar m.a. til að takast á við ólöglegar veiðar og bæta stjórn og upplýsingagjöf með fiskveiðum. Verkefnið fellur því vel að hlutverki stofnunarinnar.


4. Ljúka endurskoðun á skilgreiningu á tengdum aðilum fyrir áramót
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu frá því í janúar sl. kemur fram að ekki verði séð að Fiskistofa kanni hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum sé í samræmi við það hámark sem er skilgreint í lögum um stjórn fiskveiða. Ráðast þurfi í endurskoðun á 13. og 14. gr. laganna svo reglur um hámarksaflahlutdeild séu skýrar.

Í mars 2019 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verkefnisstjórn undir forystu Sigurðar Þórðarsonar fyrrverandi ríkisendurskoðanda til að koma með tillögur um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Nefndinni var m.a. falið að bregðast við fyrrgreindri ábendingu Ríkisendurskoðunar. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur nú óskað eftir því við nefndina að hún skili tillögum þar að lútandi fyrir 1. janúar nk. Þá er að vænta tillagna frá nefndinni á næstu vikum um bætt eftirlit með fiskveiðum og með vigtun sjávarafla.

5. Tryggja viðbótarfjárveitingar til skattrannsókna
Komið hafa fram ýmis atriði sem þarfnast ítarlegrar skoðunar af hálfu Skattrannsóknarstjóra og Ríkisskattstjóra. Í ljósi umfangs og flækjustigs slíkra mála hefur ríkisstjórnin ákveðið að stofnununum verði gert kleift að auka mannafla tímabundið til að geta sinnt þessum verkefnum á sem skjótastan og farsælastan hátt.

6. Varnir gegn hagsmunaárekstrum og mútubrotum
Á ríkisstjórnarfundinum fór forsætisráðherra yfir þau umbótaverkefni sem hafa verið í vinnslu eða eru í mótun í forsætisráðuneytinu um aukið gagnsæi og traust, þ. á m. breytingar á upplýsingalögum, frumvarp til laga um vernd uppljóstrara og fyrirhugað frumvarp forsætisráðherra um varnir gegn hagsmunaárekstrum. Þá fór dómsmálaráðherra yfir löggjöf, alþjóðasamninga og þau atriði sem unnið hefur verið að og varða mútubrot og peningaþvætti. Þá verður hugað sérstaklega að fjármögnun rannsóknar héraðssaksóknara í tengslum við rannsókn embættisins á Samherjamálinu.

7. Viðbrögð erlendis
Á fundi ríkisstjórnarinnar var fjallað um Samherjamálið með tilliti til alþjóðasamskipta. Hvorki utanríkisráðuneytið, sendiskrifstofur né viðskiptafulltrúar ekki fengið teljandi fyrirspurnir eða athugasemdir frá stjórnvöldum annarra ríkja eða alþjóðlegum og svæðisbundnum samtökum. Utanríkisráðuneytið fylgist með umfjöllun erlendis og hefur undirbúið viðbrögð vegna hugsanlegs orðsporshnekkis en hefur ekki talið ástæðu til að taka frumkvæði í sérstakri kynningu á málinu.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search