Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að ráðstafa 200 milljónum króna af fjárlögum næsta árs til að koma á fót heilsueflandi móttökum um allt land innan heilsugæslunnar. Framlagið kemur til viðbótar 130 milljónum króna sem ráðherra hefur ákveðið að verja til að efla þjónustu heimahjúkrunar. Móttökurnar verða ætlaðar eldra fólki og einstaklingum með fjölþætt eða langvinn heilsufarsvandamál. Markmiðið að tryggja þessum hópi þverfaglega og heildstæða heilbrigðisþjónustu og innleiða skipulagða heilsuvernd fyrir aldraða.
Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er heilsugæslunni ætlað stórt hlutverk í heilbrigðisþjónustu við landsmenn og þar er meðal annars sett það markmið að hún taki virkan þátt í heilsueflingu og sinni ráðgjöf á því sviði.
„Þörfin augljós og aðgerðirnar í allra þágu“
Heilbrigðisráðherra segir að eftir því sem hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar fólks í heilbrigðisþjónustunni styrkist, þeim mun betur geti hún sinnt heilsueflingu og forvörnum gagnvart skilgreindum hópum eins og hér um ræðir. „Heilbrigðisþjónusta við aldraða er að mínu mati forgangsmál þar sem hægt er að gera miklu betur. Öldruðum fjölgar og þjónustuþörfin eykst. Þörfin fyrir fjölbreytt úrræði og aukna þjónustu við fólk í heimahúsum er augljós og þær aðgerðir sem hér eru boðaðar eru tvímælalaust í allra þágu“ segir Svandís Svavarsdóttir.
Eins og áður greinir tók heilbrigðisráðherra nýverið ákvörðun um að veita 130 milljónir króna af fjárlögum þessa árs til að styrkja mönnun í heimahjúkrun og auka þjónustuna, meðal annars með stuðningi við áform um að hagnýta velferðartækni í meira mæli. Framlagið er varanlegt og skiptast 117 milljónir króna hlutfallslega milli Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Heimaþjónustu Reykjavíkur en 13 milljónir króna eru ætlaðar til að mæta vaxandi álagi í heimahjúkrun á Akureyri.
Meginmarkmið og ávinningur með aukinni þjónustu:
- Rétt þjónusta veitt á réttum stað og réttum tíma í samræmi við markmið heilbrigðisstefnu.
- Fyrirbyggjandi heilsuvernd, heilsueflingu og snemmtækri íhlutun beint að skilgreindum markhópi.
- Bætt lífsgæði þeirra sem eiga í hlut.
- Dregið úr þörf hópsins fyrir annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu.
- Færri þurfi á dvöl á hjúkrunarheimili að halda og/eða í skemmri tíma en ella.
Heimahjúkrun efld með 130 milljóna króna viðbótarframlagi (tilkynning frá 1. nóv. 2019)