Efla á geðheilbrigðisþjónustu við fanga í öllum fangelsum landsins. Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um að stofna sérhæft þverfaglegt geðheilsuteymi fanga. 70 milljónir króna verða settar í verkefnið á næsta ári.
Samkomulagið var undirritað í fangelsinu á Hólmsheiði í dag. Teymið sem á að mynda til að sinna geðheilbrigðisþjónustu við fanga verður hreyfanlegt og á líka að nýta tæknilausnir á sviði fjarheilbrigðisþjónustu til að sinna föngum.
Geðheilsuteymið verður mannað geðlæknum, sálfræðingum, hjúkrunarfræðingum og öðrum fagstéttum eftir því sem við á.
Geðheilsuteymi fanga verður hluti af opinbera heilbrigðiskerfinu og rekið á vettvangi heilsugæslunnar. Stjórnvöld segja að það samræmist ábendingum nefndar Evrópuráðsins um varnir gegn pyntingum og ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Nefndin fann í sumar að fyrirkomulagi geðheilbrigðisþjónustu við fanga. Í framhaldi af því var ákveðið að breyta áherslum áður en gengið yrði frá samningi um áframhaldandi geðheilbrigðisþjónustu.