Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita Slysavarnafélaginu Landsbjörg 15 milljóna króna fjárstyrk af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu.
Í því aftakaveðri sem gekk yfir landið 10. og 11. desember síðastliðinn og þeim erfiðu aðstæðum sem þá sköpuðust, með ófærð, rafmagnsleysi, fjarskiptatruflunum og eignatjóni sýndu björgunarsveitir landsins enn og aftur hversu gríðarlega mikilvægar þær eru öryggi landsmanna og hversu óeigingjarnt starf sjálfboðaliðar þeirra vinna, oft og tíðum við erfiðustu aðstæður.
Slysavarnafélagið Landsbjörg eru landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi. Er styrkurinn veittur í viðurkenningar- og virðingarskyni við starfsemi björgunarsveitanna og til að efla áframhaldandi starf þeirra.