Í tilefni áramóta langar mig að fara yfir árið og nefna nokkur af þeim verkefnum sem ég og ráðuneyti mitt unnum að á árinu 2019. Verkin eru ólík og spanna vítt svið en eiga það sameiginlegt að stuðla öll að betra heilbrigðiskerfi fyrir fólkið í landinu.
Sjúkrahótel við Hringbraut var afhent formlega með viðhöfn 31. janúar 2019. Í febrúar var hjúkrunarheimilið Seltjörn á Seltjarnarnesi með 40 hjúkrunarrýmum afhent til rekstrar með pompi og prakt og 1. mars 2019 tóku gildi ný lög um rafrettur.
Í apríl var tímamótasamstarf norrænna þjóða á sviði lyfjamála staðfest með undirritun samkomulags þess efnis í Ráðherrabústaðnum og í maí voru lög um þungunarrof samþykkt á Alþingi. Samþykkt laganna markar tímamót í sögu kvenréttinda hér á landi, en markmið þeirra er að tryggja að sjálfsforræði kvenna sem óska eftir þungunarrofi sé virt. Í maí voru einnig opnuð 30 ný dagdvalarrými á Hrafnistu fyrir fólk með heilabilun.
Í júní var heilbrigðisstefna til ársins 2030 samþykkt á Alþingi og í kjölfarið voru haldnir kynningarfundir um stefnuna í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Áætlun heilbrigðisstefnu til fimm ára var einnig lögð fram á Alþingi í júní. Samkomulag var undirritað milli Sjúkratrygginga Íslands og Rauða kross Íslands um framlengingu á samningi um kaup og rekstur sjúkrabifreiða og staðfest af mér í júlí 2019, en auk þess var opnað nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili Sólvangs í Hafnarfirði.
Þegar leið á haustið var þjónusta geðheilsuteyma efld með þátttöku borgarinnar, en samstarfsyfirlýsing þessa efnis var undirrituð milli Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Reykjavíkurborgar í október 2019. Fjölmennur vinnufundur um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu var skipulagður af ráðuneyti mínu og haldinn á Nauthóli um miðjan október, en fundurinn var liður í undirbúningi Heilbrigðisþings sem var haldið 15. nóvember. Í nóvember var endurnýjun sjúkrabílaflotans hafin með kaupum á 25 nýjum bílum í kjölfar útboðs, auk þess sem fyrsta skóflustungan að 60 rýma hjúkrunarheimili í Árborg var tekin formlega.
Í desember voru tvö mikilvæg skref stigin, annars vegar þegar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var falið að sinna geðheilbrigðisþjónustu við fanga í öllum fangelsum landsins og sérstakt geðheilsuteymi fanga sett á fót og hins vegar þegar ég kynnti áætlun um að verja 1,1 milljarði á næstu tveimur árum í að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga, en sem dæmi má nefna að komugjöld í heilsugæslu verða felld niður, niðurgreiðslur fyrir tannlæknisþjónustu, lyf og tiltekin hjálpartæki auknar og reglur um ferðakostnað rýmkaðar.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.