Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Vinstri grænna, hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi álykti að fela forsætisráðherra að tileinka 27. janúar ár hvert minningu fórnarlamba helfarar gyðinga á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Alls standa nítján þingmenn úr sex flokkum að tillögunni.
„Með þingsályktunartillögunni er lagt til að 27. janúar ár hvert verði tileinkaður minningu fórnarlamba helfararinnar en þann dag árið 1945 frelsaði sovéski herinn fanga úr fangabúðum nasista í Auschwitz í Póllandi,“ segir í greinargerð.