PO
EN

317 barn

Rósa Björk

Deildu 

“Verð ég örugglega áfram á Íslandi ? “ spurði lítill 7 ára drengur mig og manninn minn á mánudagsmorgun þegar við vorum að fylgja yngstu börnum okkar í skólann. Við játuðum, héldum bæði aftur af tilfinningum okkar, brostum til hans og föðmuðum létt áður en við fylgdum dóttur okkar sem er bekkjarsystir hans inn í skólastofuna þeirra. Það var annar andi í skólanum en venjulega. Það var innilegur feginleiki í loftinu snemma þennan mánudagsmorgun í skólanum. Við foreldrar föðmuðumst nokkur eða skiptumst á augnatilliti, brosi og fallegum orðum. Litli 7 ára drengurinn og foreldrar hans frá Pakistan voru hólpin. Rúmlega 19 þúsund manns kölluðu eftir lausn í máli þeirra. Helgin og vikan á undan hafði verið stormasöm, full af tilfinningum sem ég á enn eftir að sortera. Í síðustu viku var ég kosin varaformaður flóttamannanefndar Evrópuráðsþingsins, sem ég er ótrúlega stolt og ánægð af. Aðildarríki Evrópuráðsins eru 47, við þingmenn Evrópuráðsþingsins eru tæplega 317 og við erum kjörnir fulltrúar fyrir um 804 milljónir manna. Flóttamannanefnd þingsins er ein af mikilvægustu þingnefndunum. Þar fjöllum við um fólk í allra viðkvæmustu aðstæðum sem fólk getur verið í ; þegar þau þurfa að flýja heimili sitt vegna stríðsátaka, afleiðinga þeirra, örbrigðar eða ofsókna. Vegna nístandi fátæktar eða algjörs hruns á lífsskilyrðum. Í þau tæpu tvö og hálft ár sem ég hef setið í flóttamannanefndinni höfum við fjallað um nútíma þrælahald í aðildarríkjunum, aðbúnað í flóttamannabúðum eða móttökuheimilum fyrir flóttafólk, hryllilegar aðstæður flóttafólks á Grikklandi, björgun flóttafólks á Miðjarðarhafi og margt fleira. Ég hef heimsótt flóttamannabúðirnar í Zaatari í Jórdaníu sem eru fjölmennustu flóttamannabúðir í heimi fyrir Sýrlendinga sem hafa flúið stríðið þar. Þar hafast við um 78 þúsund sýrlenskir flóttamenn sem hafa flúð Sýrlandsstríðið, 20% af þeim eða um 15 þúsund þeirra eru börn. Ég hef heimsótt móttökuheimili fyrir flóttabörn í Melilla á Spáni þar sem börnum er troðið í alltof lítil herbergi og ofbeldi á sér reglulega stað. Ég hef heimsótt móttökumiðstöðvar í Zurich í Sviss fyrir börn og fjölskyldur á flótta þar sem yfirvöld hafa reynt að finna lausn sem svissneskt samfélag fellir sig við. Allt þetta og meira til eru viðfangsefni okkar í flóttamannanefndinni. Ég er höfundur viðamikillar skýrslu um ofbeldi gegn börnum á flótta sem birt var í vor. Skýrslan var samþykkt einróma bæði af nefndinni sjálfri og þingmönnum í þingsal Evrópuráðsþingsins. Langerfiðustu málin sem við erum með til umfjöllunar eru málefni barna á flótta. Þúsundir fylgdarlausra barna sem týnast í sjálfri Evrópu, flóttabörn sem er vísað aftur til Afganistan eða annarra landa eftir að hafa þvælst um allt. Börn á flótta sem hafa lent í klóm glæpagengja á leið sinni til betra lífs, horfið og endað í grófu þrælahaldi, ofbeldi, jafnvel kynferðisofbeldi. Börn sem hafa ekkert til sakar unnið nema að hafa flúið líf sitt, heimili, fjölskyldu sína, vini eða misst allt sem þau eiga. Börn sem hafa átt forelda sem hafa sent þau í óvissuna til Evrópuríkja í þeirri von að bjarga þeim, til að þau gætu átt betra líf en það sem beið þeirra í stríðshrjáðu landi. Börn sem þvælast líka um á flótta með fjölskyldu sinni – en samt tætt, hrædd og í algjörri óvissu. Í flóttamannanefndinni er líka fólk sem vill mjög lítið fyrir flóttafólk gera. Ótrúlegt en satt. Þetta eru stjórnmálamenn sem koma frá flokkum sem eru á móti því að taka á móti flóttafólki og finna því allt til foráttu. Ákveða því að sitja í flóttamannanefndinni til að koma í veg fyrir að of mikil mannúð sé beitt… Í sjálfu Evrópuráðinu sem stofnað var á grunni sundurtættar Evrópu eftir tvær heimsstyrjaldir og viðbjóðslegustu stríðsglæpi byggða á hatri gegn gyðingum, ókunnugum og þeim sem voru öðruvísi…Það tekur á að hlusta á þýska þingmann Adf tala alltaf um alla strákana sem eru alltaf að svindla sér inn í Evrópu og fremja glæpi eða belgísku þingkonuna frá Nýju sjálfstæðishreyfingu flæmingja sem hefur verulegar efasemdir um að “þetta fólk” sé í raun og veru að flýja erfitt líf. Jafnvel sænski þingmaður Moderatana (gamli flokkur Carl Bildt ) ræsir innflytjenda-andúðarvélina og talar um að nú þurfi sko að herða eftirlit við landamæri og taka harðari afstöðu. Að ekki sé minnst á ungverska þingmann Fidesz, flokks Victors Urbans, forsætisráðherra Ungverjalands. Flokkur sem vex og dafnar í skjóli viðbjóðslegrar andmannúðlegrar stefnu. En sem betur fer eru líka þingmenn í flóttamannanefndinni sem vilja láta gott af sér leiða og finna lausnir og leiðir til að tryggja réttindi fólks á flótta. Þegar heim er komið blasir við sú staða að hér á fámennri, auðugri eyju lengst norður í Atlantshafi með engin landamæri að öðrum löndum, vísum við börnum og fjölskyldum sem leita til okkar eftir alþjóðlegri vernd burt. Fólki sem eðli málsins samkvæmt hefur nánast undantekningarlaust komið til annars lands fyrst frá stríðshrjáðu landi áður en það kemur hingað í leit sinni að betra, öruggara lífi. En við vísuðum 371 barni burt frá Íslandi á tímabilinu 13. mars 2013 til 10. apríl 2019 eða á 6 árum. Að meðaltali var 62 börnum á ári vísað burt, að meðaltali 5 börnum á mánuði… Fjórum fylgdarlausum börnum var vísað burt frá Íslandi á þessu tímabili – eitthvað sem er fullkomlega óskiljanlegt og ómannúðlegt. Hvar eru þessi börn í dag ? Hvernig hefur þeim vegnað í lífinu ?Hér eru iðkaðar tanngreiningar á börnum eða unglingum til að skera úr um aldur þeirra svo yfirvöld geti úrskurðað hvort þau eigi rétt á aðstoð eða ekki. Af hverju er þeim ekki bara trúað ? Og þó svo að það muni einu eða tveimur árum hvort þau séu 18 ára ? Getum við ekki bara tekið þeim opnum örmum og boðið börnum aðstoð og hjálp ? Frumvarp um alþjóðlega vernd og brottvísunartilskipun hefur verið sýnt í samráðsgátt sem þýðir t.d. að fólki er vísað mun hraðar og með mun ómannúðlegri hætti en nú til dæmis til Grikklands án þess að kanna aðstæður sem fólk stendur frammi fyrir þar. Aðstæður flóttafólks í Grikklandi hafa verið harðlega gagnrýndar af alþjóðlegum mannúðarstofnunum og samtökum, líka aðstæður fólks sem hefur fengið þar formlega stöðu hælisleitenda. Við handveljum fólk í gegnum kvótaflóttamannasamkomulög og við Íslendingar gerum vel við það fólk, en hvað um hin ? “Hvernig ætlum við að hafa þetta ?” Eins og þáttastjórnandi Kveiks spurði í gærkvöldi í þætti um aðstæður flóttafólks á Grikklandi ? Hvernig stefnu ætlum við eiginlega að hafa hér í málefnum fólks á flótta ? Fólks sem til okkar leitar eftir ró, friði, öryggi og nýju lífi án stríðsátaka eða ótta um líf sitt. Og já, það verða alltaf einhver sem kannski ættu ekki heima í móttökukerfi okkar en við verðum að líta á heildarsýnina. Um leið og farsæl lausn fannst á máli litlu fjölskyldunnar, sem nýtist líka fáeinum öðrum fjölskyldum í svipaðri stöðu, er ekki um framtíðarlausn að ræða á því hvernig lög útlendingamála, framkvæmd og meðferð þeirra á að vera til frambúðar. Að stytta málsmeðferðartíma barnafjölskyldna úr 18 mánuðum niður í 16 er einfaldlega plástur.Við getum heldur ekki endalaust verið að bregðast bara við þegar einstaka tilvik fólks sem ratar í fjölmiðla eða vekja mikla samúð almennings og gera svo ekkert þess á milli. Rúmlega 19.000 undirskriftir fólks um allt land til stuðnings fjölskyldunni frá Pakistan sýndu svart á hvítu að það er almennur vilji til að sýna miklu meiri mannúð þegar kemur að móttöku barna og fjölskyldna sem til okkar leita eftir alþjóðlegri vernd. Við eigum að hlusta þegar almenningur talar og sýnir enn og aftur í verki að mannúðin verður að vera í algjörum forgangi þegar um meðferð útlendingamála er að ræða. Það eru líka skýr skilaboð til lausnar á þeim tilvikum þar sem líf fólks á flótt sem fáir vita af og ekki rata í fjölmiðla eða hreyfa við fólki. Við sem setum lög í landinu verðum að fara að taka ákvarðanir um heildarstefnu og sýn byggða á mannúð, manngæsku og náungakærleika en ekki byggða á ótta og hræðslu. Samfélög eru nefnilega metin út frá því hvernig þau koma fram við þau sem minnst mega sín.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, alþingismaður

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search