PO
EN

Al­manna­hags­munir í auð­linda­á­kvæði

Deildu 

Þorsteinn Pálsson er sjóaður í pólitískum skrifum, hefur enda stundað þau frá því að hann var ráðinn á Morgunblaðið 1970, síðar sem ritstjóri Vísis og auðvitað sem þingmaður, ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann nýtir kunnáttu sína til fullnustu í grein sem birtist í Fréttablaðinu á föstudag, þar sem hann gefur vægast sagt vafasama mynd af vilja stjórnarflokkanna þegar kemur að því að setja auðlindaákvæði inn í stjórnarskrá. Nú vill svo til að drög að auðlindaákvæði voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og því hæg heimatökin að kynna sér vilja stjórnarflokkanna.

Samkvæmt því ákvæði er skýrt kveðið á um að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni og að nýting þeirra skuli vera sjálfbær. „Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota,“ segir þar. Ef slíkt ákvæði fer inn í stjórnarskrá er grundvöllur stjórnskipunarinnar orðinn sá að réttindi til að nýta sameiginlegar auðlindir verða annaðhvort tímabundin eða uppsegjanleg; þau verða ekki afhent neinum varanlega, rétt eins og rætt hefur verið allt frá tillögum auðlindanefndar árið 2000. Hvað nýtingu varðar segir: „Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“

Hér er skýrt kveðið á um eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sínum og það gert stjórnarskrárbundið að greiða verði gjald fyrir heimildir til nýtingar. Allt tal um að ekki eigi að krefjast gjalds fyrir nýtingu, er því einungis gamaldags pólitískur útúrsnúningur.

Rétt er að taka það fram að umrætt auðlindaákvæði nær yfir miklu meira en fiskveiðiauðlindina. Hér er kveðið á um allar auðlindir í náttúru Íslands, hvort sem þær lúta að vatnsföllum, eða gæftum landsins. Sú staðreynd hefur farið allt of lágt í umræðunni, þetta er framsækin nálgun og þeim mun mikilvægara að ná slíku inn í stjórnarskrá. Með þessu yrði hugtakið þjóðareign loksins skilgreint og fest í stjórnarskrá.

Það er von mín að samstaða náist um að koma auðlindaákvæði inn í stjórnarskrá, enda hafa lögspekingar sem rýnt hafa málið rætt mikilvægi þess. Ég efast ekki um að einhver vilji öðruvísi ákvæði en var kynnt í samráðsgáttinni, sum vilja ganga lengra, önnur kannski skemmra. Formenn stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi funda reglulega um þessi mál. Stóri sigurinn í málinu er að ná ákvæði um auðlindir inn í stjórnarskrá.

Skrif Þorsteins og ummæli ýmissa stjórnmálamanna gefa þó til kynna að sú von mín gæti verið of bjartsýn. Sú staða gæti komið upp að einhverjir stjórnmálaflokkar sjái sér hag í að leggjast gegn ákvæðinu og bera því við að það sé ekki nákvæmlega eins og þeir vilja. Þannig yrði komið í veg fyrir að mikilvægar umbætur næðust á stjórnarskránni okkar.

Vonandi verður sú ekki raunin, því slíkt væri að taka sérhagsmuni eigin flokks í pólitíkinni fram yfir þá almannahagsmuni sem felast í stjórnarskrárákvæði um að auðlindir séu sameign þjóðarinnar.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, alþingismaður.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search