PO
EN

Heilsugæslan nýtur mikils trausts

Deildu 

Notendur heilsugæsluþjónustu hjá heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu bera almennt mikið traust til heilsugæslunnar (74%), eru ánægðir með þjónustuna (79%) og telja viðmót og framkomu starfsfólks gott (90%). Þetta er meðal þess sem lesa má úr niðurstöðu þjónustukönnunar sem fyrirtækið Maskína vann fyrir Sjúkratryggingar Íslands (SÍ).

Kannanir sem þessar eru liður í eftirliti SÍ með þjónustu sem veitt er á grundvelli samninga við stofnunina. Niðurstöðurnar hafa þegar verið kynntar rekstraraðilum og verða nýttar bæði af SÍ og einstökum þjónustuveitendum til að þróa og efla þjónustuna, líkt og fram kemur í tilkynningu á vef Sjúkratrygginga Íslands þar sem niðurstöður könnunarinnar eru jafnframt aðgengilegar.

Könnunin var gerð með slembiúrtaki meðal þeirra sem sótt höfðu þjónustu á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu janúar – október 2018. Könnunin tók til samtals 19 heilsugæslustöðva. Þátttakendur í könnuninni voru tæplega 6.000, um 300 fá hverri stöð.

Af frekari niðurstöðum má nefna að um 30% notenda telja brýnt að stytta bið eftir þjónustu hjá heilsugæslunni almennt, um 20% telja mikilvægt að auðvelda aðgengi að læknum í síma og um 15% vilja auka rafræna þjónustu.

Í tilkynningu SÍ segir að niðurstöður könnunarinnar veiti verðmætar upplýsingar um það sem vel er gert og hvað megi betur fara hjá einstökum heilsugæslustöðvum. Gögnin séu mikilvæg sem verkfæri jafnt fyrir SÍ og heilsugæslustöðvarnar sjálfar til að þróa og bæta þjónustu sína enn frekar.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search