Flest hafa eflaust eitthvað heyrt getið um að ef býflugur deyja út verði ekki hægt að framleiða hunang. En hversu margir átta sig á því að 75% af allri ræktun matvæla er háð frævun frá alls konar dýrategundum? Eða að vistkerfin í vatni og á jörðu sjá um að kolefnisjafna 60% af því sem mannkynið framleiðir? Hvað gerist þá ef tegundum fer að fækka og mannkynið heldur áfram að fjölga sér? Ef mat fer að skorta og hitastig og sjávaryfirborð að hækka?
Rúmlega 30 ungmenni frá Færeyjum, Grænlandi, vesturströnd Noregs og Íslandi hittast í dag í Reykjavík. Umræðuefnið er framtíð hafsins og hvernig megi sporna gegn útrýmingu fleiri dýrategunda – og þar með einnig framtíð unga fólksins sjálfs. Okkur sem eldri erum ber skylda til að hlýða á unga fólkið.
Síðar á árinu munu aðildarlönd Samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni funda til að gera nýjan samning. Þetta eru öll aðildarríki SÞ nema Bandaríkin. Núverandi samningur er frá árinu 1992 og ljóst að ekki hefur tekist að ná settum markmiðum.
Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð hafa í samráði við Norðurlandaráð æskunnar sett saman verkfærakistu sem á að gera ungum Norðurlandabúum kleift að koma skoðunum sínum á framfæri og vera með innlegg í viðræðurnar um nýju stefnu SÞ á sviði líffræðilegrar fjölbreytni.
Líffræðileg fjölbreytni er stórt og flókið hugtak sem varla er hægt að útskýra með fullnægjandi hætti í stuttu máli, og mikilvægi þess fyrir hafið, fyrir jörðina – fyrir framtíð ungu kynslóðarinnar. Afleiðingar útrýmingar fjölda tegunda verða gríðarlegar. Þess vegna valdi Ísland líffræðilega fjölbreytni sem eitt af áhersluatriðum formennskuáætlunarinnar sem við förum með í Norðurlandaráði þetta árið.
Ég hvet öll til að mæta í Norræna húsið í dag klukkan 15 og vera við pallborðsumræður um líffræðilegan fjölbreytileika. Unga fólkið veit hvað það syngur og þeirra er framtíðin.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður.