PO
EN

Tillögur átakshóps til að leysa úr vanda bráðamóttöku Landspítala

Deildu 

Átakshópur sem fjallað hefur um lausnir á þeim vanda sem birtist á bráðamóttöku Landspítalans leggur fram ellefu tillögur um aðgerðir sem forgangsraðað er eftir mikilvægi. Tillögurnar og fyrstu viðbrögð við þeim voru kynnt á fréttamannafundi sem haldinn var á Landspítalanum í Fossvogi í dag.

Ákvörðun um skipun átakshópsins var tekin á sameiginlegum fundi heilbrigðisráðherra, landlæknis og forstjóra Landspítala 16. janúar síðastliðinn þar sem vandi bráðamóttökunnar var til umfjöllunar, m.a. í tengslum við ábendingar landlæknis þar að lútandi. Verkefni hópsins var að greina vandann, leggja fram tillögur að aðgerðum til úrbóta og forgangsraða þeim í tímaröð.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hóf fundinn og fór yfir nauðsyn þess að bregðast skjótt við

til að koma tillögum átakshópsins í framkvæmd. Hún þakkaði sérstaklega öllum þeim sem tóku þátt í vinnunni við verkefnið sem voru, auk fulltrúanna í átakshópnum,  hátt í þrjátíu manns af ýmsum deildum spítalans. Hún sagði einnig að mikilvægt hefði verið að fá ráðgjöf erlendra sérfræðinga, en skýrsla þeirra fylgir skýrslu átakshópsins ásamt ýmsum fleiri gögnum sem liggja til grundvallar tillögum hans.

Páll Matthíasson forstjóri Landspítala kynnti þær tillögur átakshópsins sem snúa beint að Landspítalanum og því næst sagði Ásta Valdimarsdóttir, ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins frá þeim tillögum sem ráðuneytið ber ábyrgð á að framfylgja. Í framhaldi af kynningu Páls og Ástu ræddi Alma Möller landlæknir um niðurstöður og tillögur átakshópsins frá sjónarhóli embættis síns.

Stefnumarkandi ákvörðun forstjóra og framkvæmdastjórnar Landspítala

Fram kom hjá Páli að fyrsta tillaga átakshópsins hefði verið rædd og samþykkt formlega á fundi hans með framkvæmdastjórn spítalans í morgun. Í þessu felst að tekin hefur verið stefnumarkandi ákvörðun af hálfu Landspítala um að sjúklingar á bráðamóttöku sem þurfa innlögn flytjist á viðeigandi legudeildir sem fyrst. Til að fylgja þessari ákvörðun eftir mun Landspítali gera verk- og tímaáætlun, þ.m.t. áhættumat. Gera skal ráð fyrir að sjúklingar bíð ekki innlagnar lengur en í tiltekinn tíma, að hámarki 6 klukkustundir frá komu og að útfærslan feli í sér fyrst um sinn tiltekinn hámarksfjölda sjúklinga sem bíða eftir innlögn.

Fylgiskjöl með skýrslunni:

1. Skýrsla ráðgjafanna Johan Permert og Markus Castegren.

2. Tillögur vinnuhóps 1.

3. Tillögur vinnuhóps 2.

4. Tillögur vinnuhóps 3.

5. Greinargerð vinnuhóps um möguleika þess að koma upp hágæslurýmum á Landspítala.

6. Skilamat stýrihóps um sérhæfða heimaþjónustu við veika aldraða frá 2017.

7. Glærur Eydísar Óskar Hafþórsdóttur, sérfræðings í heimilis- og öldrunarlækningum, um reynslu af þverfaglegu móbílu öldrunarteymi í Svíþjóð.

8. Tilvísana- og ráðgjafamiðstöð Landspítala – verklýsing.

9. Framtíðarskipan líknarþjónustu á Íslandi – skýrsla starfshóps um tillögur að skipulagningu líknar- og lífslokameðferðar á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum, Suður- og Vesturlandi.

10. InterRAI-mælitækin og færni- og heilsumat – skýrsla vinnuhóps um áframhaldandi vinnu í kjölfar úttektar KPMG fyrir Embætti landlæknis.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search