Innviðaframkvæmdum flýtt – átakshópur skilar skýrslu og áætlun um 540 aðgerðir á vefsíðunni innvidir2020.is
Tillögur átakshóps um úrbætur í innviðum fela m.a. í sér að:
- jarðstrengjavæðingu dreifikerfis raforku verði flýtt til 2025 í stað 2035
- framkvæmdir í svæðisflutningskerfi raforku sem ekki eru á 10 ára kerfisáætlun verði flýtt
- leyfisveitingar vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku verði einfaldaðar og skilvirkni aukin
- varaafl fyrir raforku og fjarskipti verði endurskilgreint og eflt
- uppbyggingu ofanflóðavarna verði lokið árið 2030
Hópurinn var skipaður í kjölfar fárviðrisins sem gekk yfir í desember sl. Á næstu tíu árum verður framkvæmdum flýtt fyrir 27 milljarða króna, bæði hvað varðar framkvæmdir í flutnings- og dreifikerfi raforku og í ofanflóðavörnum. Aðgerðaáætlun átakshópsins má finna á vefsíðunni www.innvidir2020.is.
Ríkisstjórnin skipaði átakshóp um úrbætur í innviðum í kjölfar fárviðrisins sem gekk yfir í desember 2019. Hópurinn leitaði til sveitarfélaga, innviðafyrirtækja og stofnana til að fá sýn þeirra um nauðsynlegar úrbætur í innviðum og skilaði í dag skýrslu sinni til ríkisstjórnar auk heildstæðrar aðgerðaáætlunar vegna uppbyggingar innviða fram til 2030.
Átakshópurinn leggur til fjölmargar aðgerðir til að styrkja innviði landsins í kjölfar óveðursins. Þær snúa m.a. að:
- úrbótum á varaafli,
- auknum áreiðanleika raforku- og fjarskiptakerfa,
- skilgreiningu á hlutverki og mönnun fyrirtækja og stofnana,
- samræmingu skipulags innviða,
- eflingu almannavarnakerfisins,
- fræðslu og upplýsingagjöf til almennings og
- eflingu rannsókna og vöktunar á náttúruvá.
Margvíslegt tjón varð af fárviðrinu og ekki allt metið til fjár. Beint tjón raforkufyrirtækja, fjarskiptafyrirtækja og stofnana ríkisins nam um einum milljarði króna, þar af um tveir þriðju hjá raforkufyrirtækjum. Tjón atvinnufyrirtækja, bænda og heimila liggur ekki fyrir og kemur ekki allt í ljós fyrr en síðar á árinu. Átakshópurinn fékk ráðgjafafyrirtækið KPMG til að meta kostnað samfélagsins af stöðvun atvinnulífs um land allt í einn dag og var niðurstaða þess mats að kostnaðurinn næmi 1,7 milljörðum króna á dag.
Átakshópurinn leggur auk framangreinds til fjölmargar aðgerðir sem byggjast á stefnu stjórnvalda í viðkomandi málaflokkum, samþykktum stefnum og áætlunum, áhættumati Þjóðaröryggisráðs og almannavarna og upplýsingum sérfræðinga, stofnana, fyrirtækja og sveitarfélaga. Samkvæmt mati hópsins mun heildarfjárhæð framkvæmda hins opinbera og innviðafyrirtækja í uppbyggingu innviða nema 900 milljörðum króna á næstu tíu árum. Helstu aðgerðir eru:
- Jarðstrengjavæðingu dreifikerfis raforku verði flýtt þannig að árið 2025 verði henni lokið að langmestu leyti í stað ársins 2035.
- Tillögur til einföldunar og aukinnar skilvirkni í leyfisveitingum vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku.
- Framkvæmdum í svæðisflutningskerfi raforku, sem ekki eru á 10 ára kerfisáætlun Landsnets, verði flýtt.
- Trygging á framboði varma á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu, í nafni almannahagsmuna og orkuöryggis, með könnun á varmastöð í Krýsuvík.
- Grunnnet fjarskipta verði byggt upp með hliðsjón af aðgengi og öryggi og tengingu Íslands við umheiminn
- Öryggi verði haft í fyrirrúmi við allar ákvarðanir í samgöngumálum.
- Uppbyggingu ofanflóðavarna verði lokið árið 2030.
- Efling almannavarnakerfisins og heildstæð vöktun náttúruvár.
- Varaafl fyrir raforku og fjarskipti endurskilgreint og eflt.
- Samræmd stefnumótun í málefnum innviða og áætlunum ríkisins.
Aðgerðaáætlun átakshópsins má finna á vefsíðunni innvidir2020.is. Í henni eru taldar til aðgerðir vegna uppbyggingar innviða fram til 2030 með nýjum verkefnum en einnig verkefnum sem liggja fyrir í samþykktum áætlunum ríkisins, sveitarstjórna og fyrirtækja. Áætlunin telur 540 aðgerðir, þar af eru 192 nýjar aðgerðir og 40 aðgerðir sem lagt er til að verði flýtt í framkvæmdaáætlunum Landsnets og dreifiveitna. Aðrar aðgerðir eru þegar innan núverandi framkvæmda- og fjármálaáætlana.
Samantekt átakshóps um úrbætur á innviðum
Kynning átakshóps um uppbyggingu innviða