Staðan við landamæri Grikklands og Tyrklands er óbærileg. Eftir linnulausar árásir Rússa og Tyrkja á Idlib-hérað í Sýrlandi undanfarnar vikur hafa um 900 þúsund manns flúið þaðan, langflestir að landamærum Tyrklands. Og Erdogan, Tyrklandsforseti, hefur gjörnýtt sér þessa stöðu og margt bendir til þess að tyrknesk yfirvöld hafi hvatt flóttamenn til að fara yfir grísku landamærin, bæði landleiðina og sjóleiðina. Grikkland brást hart við og stöðvuðu um 24 þúsund manns við landamærin, enda hafa grísk stjórnvöld ekki ráðið við þann fjölda flóttafólks sem hafa flúið borgarastríðið í Sýrlandi undanfarin ár og flóttafólk sem hefur komið frá Afganistan og Írak og munu ekki ráða við meir. Um það vitnar óboðlegt ástand á grísku eyjunni Lesbos, þar sem flóttamannabúðir eru löngu sprungnar, ástandið þar vægast sagt hörmulegt og aðstæður fólks þar ömurlegar.
Spennan við landamæri Grikklands og Tyrklands hefur verið gríðarleg, ásakanir á báða bóga um að annarsvegar hafi gríska landamæralögreglan skotið á flóttafólk sem kom yfir landamærin og sjóleiðis og hins vegar að tyrknesk stjórnvöld leiðbeini flóttafólki hvernig fara eigi yfir landamærin og hvetji það óspart til þess. Fundir Pútíns og Erdogan um helgina og vopnahlé í Idlib, gefa vonir um að árásunum þar linni um stund og hætti vonandi.
Skammarlegasti samningur sem ESB hefur gert
Það var bara tímaspursmál hvenær Erdogan myndi nota spilið á Evrópu sem hann hefur haft uppi í erminni. Spilið er samningurinn við Evrópusambandið frá 2016 um að Tyrkland myndi halda 3,2 milljónum flóttafólks sem flúði hörmulegt stríð hjá sér, í stað þess að leyfa þeim að flýja áfram upp Evrópu og láta þau lönd taka á móti þeim. Evrópusambandið borgaði sig frá því að axla mannúðlega ábyrgð á flóttafólki í neyð sem flúði skelfilegt Sýrlandsstríðið, því ekki náðist samkomulag meðal allra ESB landanna um að taka við fólkinu. Sum lönd í Evrópusambandinu öxluðu þó sannarlega ábyrgð eins og Þýskaland sem tók við rúmlega milljón Sýrlendingum. Sú ákvörðun varð þó Angelu Merkel afar erfið pólitískt. Svíþjóð stóð líka sína plikt með því að taka á móti um 170 þúsund Sýrlendingum á flótta en það sama gerðist þar og í Þýskalandi, hægri-öfga öflin í Svíþjóð misnotuðu neyð fólks á flótta og mannúðina sem þeim var sýnd, til að ala á hatri, ótta og andúð á innflytjendum. Allt sér í hag til að vinna sér fylgi hjá óttaslegnum kjósendum sem vissi ekki hvað það var hrætt við. AUGLÝSING
Og nú- eftir margar hótanir til Evrópuríkja – hafa tyrknesk stjórnvöld sýnt hvers þau eru megnug. Eftir mikið mannfall Tyrkja í Norð-Vestur Sýrlandi, hvar Tyrkir höfðu reynt að skapa öruggt svæði til að snúa tilbaka hundruðum þúsunda Sýrlendinga sem Tyrkir tóku á móti vegna stríðsins, þá gáfust þeir upp og tóku ákvörðun um að hleypa flóttafólki frá Sýrlandi áfram með því að opna landamæri sín til Evrópu. Það sem margir Evrópubúar óttast mest.
Samningurinn hefur alls ekki verið auðveldur fyrir Tyrki, heldur mikið álag á tyrkneskt samfélag og skapað pólitíska og efnahagslega spennu.
Og álagið vegna Sýrlandsstríðsins hefur líka verið gríðarlegt á Grikkland. Skömmu eftir þjóðargjaldþrot Grikklands bættist við fjöldinn allur af fólki að flýja stríðsrekstur, dráp, hræðilega eymd og algjöra eyðileggingu heimahaga sinna og leita verndar hjá Grikkjum sem varla höfðu náð að byggja upp innviði sína eftir fjárhagshrun þeirra.
Ólíðandi að Ísland sendi fólk aftur Grikklands við núverandi aðstæður
Grísk stjórnvöld hafa þó reynt sitt besta við erfiðar aðstæður, en nú er svo viðbúið að Grikkir geta ekki meir. Neyðarkall barst frá grískum stjórnvöldum fyrir nokkrum dögum sem meðal annars báðu Evrópuríki allavega að taka við eitthvað af þeim 20 þúsund börnum sem eru á flótta innan Grikklands…Finnsk stjórnvöld, frönsk stjórnvöld og portúgölsk stjórnvöld hafa brugðist við og ræða hvernig þau geta aðstoðað Grikki og þýsk stjórnvöld hafa tilkynnt að þau muni taka á móti 1000-1500 flóttabörnum sem eru í Grikklandi.
Og hvað gerir Ísland ? Íslensk stjórnvöld ætla ekki að svara neyðarkalli Grikkja og taka við eitthvað af þeim börnum. Nei, íslensk stjórnvöld ætla að standa fyrir því að fimm barnafjölskyldur verði sendar aftur til Grikklands, jafnvel þó þessar barnafjölskyldur hafi óskað eftir því að vera frekar á Íslandi og byggja upp sitt líf hér. Foreldrar barna sem telja sig geta veitt börnum sínum miklu betra og öruggara líf á Íslandi en á Grikklandi, jafnvel þó að þau hafi fengið stöðu hælisleitenda þar í landi sem veitir þeim ákveðin réttindi.
Því staða fyrir flóttafólk og hælisleitendur í Grikklandi er óboðleg við núverandi aðstæður.
Við Íslendingar ætlum greinilega ekki að sýna samstöðu með ríkjum sem hafa reynt að axla þúsundfalt meiri ábyrgð en við þegar kemur að móttöku flóttafólks frá stríðshrjáðu Sýrlandi síðastliðin ár heldur vísa fólki þangað og segja við Grikki; „Gjörið svo vel, við höfum ekkert með þetta fólk að gera, þið getið sinnt skyldu ykkar.“
En það sem er mun verra er að íslensk stjórnvöld ætla greinilega ekki heldur að sýna samstöðu með börnum sem hafa flúið óboðlegar aðstæður með foreldrum sínum og óska eftir því að lifa sínu lífi hér.
Það er komin tími til að ríkisstjórn Íslands taki skýra ákvörðun. Ákvörðun um að sýna mannúð, veita börnum skjól og standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Með því að setja niður stefnu í málefnum flóttafólks en ekki bregðast við í einstaka málum. Ekki láta endurskoðun útlendingalaga halda áfram að lafa í einhverju gervi-ferli, heldur taka skýra ákvörðun um mannúð og fylgja henni í raun og veru. Því mikil verður skömm íslenskra ráðamanna ef fjölskyldum og börnum á flótta í leit að mannsæmandi lífi verður í enn eitt skiptið vísað frá Íslandi í óvissuna.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður og varaformaður flóttamannanefndar Evrópuráðsþingsins.