Í nóvember sl. hófst tilraunaverkefni um söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi í Grundarhverfi á Kjalarnesi. Skipt var út sorptunnum í hverfinu og í stað hefðbundinna tunna komu hólfaskiptar tunnur þar sem lífrænt sorp fer í annað hólfið og almennt sorp í hitt. Einnig þurfti að aðlaga sorphirðubílinn að verkefninu til að flokkunin héldist alla leið.
Í upphafi voru nokkrir hnökrar á flokkun hjá íbúum en fólk virðist hafa verið tiltölulega fljótt að tileinka sér ‚nýtt verklag‘. Nú í febrúar var staðan sú að 94% sorps var rétt flokkað. Það sem helst lenti með lífræna sorpinu var plast, sem getur kannski að hluta skýrst af því að ekki eru alltaf greinagóðar merkingar á pokum sem verslanir selja undir vörur um hvort þeir megi fara í lífrænt sorp eða ekki. Eins var eitthvað um pappír og smáræði af málmi. Það má því líklega álykta að verkefnið sé á góðri leið en reynsluna af því má nýta við að hefja flokkun lífræns úrgangs á öllu höfuðborgarsvæðinu og er því til mikils að vinna. .
Íbúar á Kjalarnesi hafa heilt á litið verið jákvæðir gagnvart verkefninu og einhverjar fyrirspurnir bárust frá íbúum í dreifbýlinu sem hefðu gjarna viljað fá að vera hluti af verkefninu. Það verður spennandi að fylgjast með þróuninni þegar verkefnið verður víkkað út og íbúar alls höfuðborgarsvæðisins geta farið að flokka lífrænan eldhúsúrgang frá almennu sorpi enda samræmist það stefnu borgarinnar um að hætta urðum lífræns úrgangs. Mikilvægt er að auka alla sorpflokkun og draga almennt úr neyslu og umfangs sorps til framtíðar.
Sigrún Jóhannsdóttir, formaður íbúaráðs Kjalarness