PO
EN

Milljarður króna til innviðauppbyggingar í heilbrigðiskerfinu á þessu ári

Deildu 

Byggt verður við endurhæfingardeild Landspítalans við Grensás, ráðist í endurbætur á húsnæði heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og sérstakt framlag veitt til nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu. Einum milljarði króna verður varið í þessi verkefni á árinu samkvæmt tillögu til þingsályktunar um tímabundið fjárfestingarátak stjórnvalda til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Þingsályktunartillagan verður tekin til umfjöllunar á Alþingi í dag.

Mikil þörf fyrir uppbyggingu og endurbætur

„Það verður ekki of oft sagt að heilbrigðiskerfið er ein mikilvægasta stoð hvers samfélags eins og við erum að kynnast þessa dagana í ríkara mæli en okkur gat órað fyrir. Það þarf því að enginn að velkjast í vafa um nauðsyn og mikilvægi verkefna sem eru í þágu heilbrigðiskerfisins okkar og styrkingar á innviðum þess,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Hún nefnir sérstaklega ákvörðun um að byggja við endurhæfingardeild Landspítalans við Grensás sem sé mikilvægt þjóðþrifamál sem lengi hafi verið beðið eftir og sé til þess fallið að efla mikilvæga þjónustu.

Uppbygging á Grensási þjóðþrifamál

Með fjárfestingarátakinu er gert ráð fyrir því að á þessu ári renni 200 milljónir króna í framkvæmdir vegna stækkunar Grensásdeildar Landspítalans. Áætlaður heildarkostnaður vegna viðbyggingarinnar eru um 1,6 milljarðar króna sem áformað er að fjármagna að fullu á næstu þremur árum. Þörf fyrir endurhæfingarrými fer ört vaxandi samhliða miklum framförum í meðferð alvarlegra sjúkdóma og áverka. Húsnæðið á Grensási er nær 50 ára gamalt og stenst ekki nútímakröfur varðandi sjúkrahúsþjónustu.  Það birtist meðal annars í skorti á salernum, lyftum, takmarkaðri baðaðstöðu, skorti á einbýlum og ónógri aðstöðu fyrir aðstandendur sjúklinga. Mikill undirbúningur hefur þegar farið fram við frumhönnun viðbyggingar og hefur deiliskipulag verið samþykkt. Stærð viðbyggingar verður 3.100 fm2   og að lágmarki 35 endurhæfingarrúm á tveimur sólarhringsdeildum. Öll þjálfunaraðstaða og meðferðarrými verða til fyrirmyndar og mun uppbyggingin gjörbylta aðstöðu til endurhæfingar á Grensási og þar með til endurhæfingarþjónustu í íslensku heilbrigðiskerfi. 

Heilbrigðisstofnun Norðurlands fær 200 milljóna króna framlag til nýframkvæmda og endurbótaverkefna. Stærstu verkefnin felast í framkvæmdum á Húsavík með umfangsmiklum breytingum á húsnæðinu þar sem bætir til muna aðstöðu sjúklinga.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands fær 200 milljónir króna vegna viðhalds og endurbóta á sjúkrahúsinu á Selfossi. Heildarkostnaður áformaðra framkvæmda er um 1,6 milljarður króna sem áformað er að fjármagna á næstu þremur árum.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands fær 200 milljónir króna til viðhalds og endurbóta á starfsstöðvum stofnunarinnar. Meðal annars er áformað að færa öll endurhæfingarrýmin í Stykkishólmi á einn stað.

Ráðist verður í sérstakt átaksverkefni um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu. Áætlað er að 150 milljónir króna renni til þess og er þetta hluti af verkefninu um Stafrænt Ísland. Markmiðið er að efla varnir gegn vá eins og nú steðjar að og beita nýrri nálgun við veitingu heilbrigðisþjónustu og á sviði forvarna í samræmi við heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Meðal annars verður litið til þjónustu Sjúkratrygginga Íslands.

Loks verður 50 milljónum króna varið til áframhaldandi þróunar rafrænnar sjúkraskrár með áherslu á samskipti við notendur og bætt utanumhald um biðlista.

Áformað er að verja 15 milljörðum króna í fjárfestingarátak stjórnvalda á þessu ári og ráðist verður í fjölbreytt verkefni á málefnasviðum flestra ráðuneyta. Horft er til arðbærra fjárfestinga sem auka eftirspurn eftir vinnuafli og einnig að verkefnin sem ráðist verður í dreifist um landið. Ráðast skal í framkvæmdir sem fyrst og skilyrði er að þær geti hafist fyrir 1. september næstkomandi.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search