PO
EN

Stækkun Grensáss: fyrir 1,6 milljarða króna

Deildu 

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að setja stækkun endurhæfingardeildar Landspítala við Grensás í forgang og er ráðgert að hefja framkvæmdir strax. Gert er ráð fyrir að verja 200 milljónum króna til framkvæmdanna á þessu ári en áætlaður heildarkostnaður er 1,6 milljarðar.

Húsnæðið á Grensási er nær 50 ára gamalt og stenst ekki nútímakröfur varðandi sjúkrahúsþjónustu.  Mikill undirbúningur hefur þegar farið fram við frumhönnun viðbyggingar og hefur deiliskipulag verið samþykkt. Stærð viðbyggingar verður 3.100 fm2   og að lágmarki 35 endurhæfingarrúm á tveimur sólarhringsdeildum. Öll þjálfunaraðstaða og meðferðarrými verða til fyrirmyndar og mun uppbyggingin gjörbylta aðstöðu til endurhæfingar á Grensási og þar með til endurhæfingarþjónustu í íslensku heilbrigðiskerfi. 

Mikil og vaxandi þörf fyrir endurhæfingarþjónustu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir stækkun endurhæfingardeildarinnar við Grensás þjóðþrifamál sem lengi hafi verið beðið eftir og muni stórefla mikilvæga þjónustu. „Þörf fyrir endurhæfingarrými fer ört vaxandi samhliða miklum framförum í meðferð alvarlegra sjúkdóma og áverka. Að hraða þessari uppbyggingu og efla getu Grensáss til að sinna fólki sem þarf á endurhæfingu að halda er svo sannarlega arðbær fjárfesting“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Stækkun Grensáss er liður í því fjárfestingarátaki sem stjórnvöld hafa boðað til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Þingsályktunartillaga um fjárfestingaráætlunina var rædd á Alþingi í gær og er nú til umfjöllunar í fjárlaganefnd. Horft er til arðbærra fjárfestinga sem auka eftirspurn eftir vinnuafli og einnig að verkefnin sem ráðist verður í dreifist um landið. Skilyrði er að framkvæmdir geti  hafist sem fyrst og eigi síðar en 1. september næstkomandi.

Alls verður einum milljarði króna varið til innviðauppbyggingu í heilbrigðiskerfinu á þessu ári samkvæmt þingsályktunartillögunni um sérstak fjárfestingarátak.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search