PO
EN

Við komum tvíefld til baka

Deildu 

Nú er rúmur mán­uður síðan greint var frá fyrsta COVID-19 smit­inu hér á landi. Á ótrú­lega stuttum tíma hefur líf okkar breyst. Nú reynum við öll að hlýða Víði, fram­boð á flugi til lands­ins er eins og um mið­bik síð­ustu aldar og ferða­þjón­ust­an, ein stærsta starfs­grein lands­ins, er í frosti. Far­ald­ur­inn hefur haft mikil áhrif á efna­hags­kerfi heims­ins og mun það taka tíma að koma dag­legu lífi okkar á rétt ról aft­ur. Rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttur hefur sent skýr skila­boð um að hún muni gera það sem þarf til þess að koma í veg fyrir að fólk lendi í efna­hags­örð­ug­leik­um. Hið opin­bera mun standa með fólki og fyr­ir­tækjum og þannig verður skað­inn sem minnst­ur. 

Hluti af þeim aðgerðum eru svokölluð brú­ar­lán sem veitt verða til fyr­ir­tækja til að kom­ast í gegnum storm­inn án þess að fjölda­gjald­þrot verði. Málið hefur tekið breyt­ingum í með­ferð fjár­laga­nefndar og efna­hags- og við­skipta­nefndar Alþingis og það verður tryggt að fyr­ir­tæki sem fá rík­is­á­byrgð á hluta lána sinna megi ekki greiða sér út arð eða kaupa eigin hluta­bréf á meðan þau njóta rík­is­á­byrgð­ar. Þá mun sér­stök nefnd hafa eft­ir­lit með fram­kvæmd brú­ar­lána. Þannig verður tryggt að svartir sauðir mis­noti ekki almannafé og fram­kvæmdin verður sann­gjörn.

Samhliða þessu var fjár­laga­nefnd með til umfjöll­unar sér­stakt fjár­fest­inga­á­tak. Sam­tals mun ríkið og opin­ber fyr­ir­tæki fjár­festa fyrir 25 millj­arða auka­lega á þessu ári. Þannig munum við skapa störf og fjár­festa í innviðum okk­ar. Fyrir var búið að ákveða fram­kvæmdir fyrir rúma 80 millj­arða króna á þessu ári. Valin voru verk­efni sem sér­fræð­ingar töldu ger­legt að koma í verk á árinu, þar sem hönnun væri lokið og svo fram­veg­is. 

Inn­spýt­ing í heil­brigð­is­kerfið

Af þessum fjár­munum fer einn millj­arður í mik­il­vægar aðgerðir í heil­brigð­is­kerf­inu okk­ar. Við­bygg­ingu við Grens­ás­deild Land­spít­al­ans verður flýtt og við­haldi flýtt víða um land. Áður voru ákveðnar fram­kvæmdir fyrir 5 ma. kr. við Nýja Land­spít­al­ann. Aldrei hefur verið jafn aug­ljóst hversu mik­il­vægt opin­bert heil­brigð­is­kerfi er og því er mik­il­vægt að horfa til fram­tíðar og styrkja það.

Þá stendur einnig til að ráð­ast í ýmis sam­göngu­verk­efni, meðal ann­ars stækkun á flug­hlaði á Akur­eyr­ar­flug­velli og nýja akbraut á Egils­staða­flug­velli. Þetta eru tíma­bærar fram­kvæmdir sem auka öryggi á inn­an­lands­flug­völl­unum okk­ar. 

Það er svo ekki hægt að tala um mik­il­vægar sam­fé­lags­legar fram­kvæmdir án þess að tala um umhverf­is­mál. Til stendur að hraða nauð­syn­legri upp­bygg­ingu til að stuðla að orku­skiptum í sam­göngum og þá verður ráð­ist í aukið átak til kolefn­is­bind­ing­ar. Mik­il­væg og græn skref á vakt Vinstri grænna. 

Við munum ráð­ast í upp­bygg­ingu á frið­lýstum svæð­um, m.a. með göngu­stíg­um, bíla­stæðum og öðrum innvið­um. Þannig mun aðstaða á Þing­völlum og við Jök­ulsár­lón stór­bæt­ast. Þannig mun upp­lifun ferða­manna vera þeim mun betri þegar ferða­þjón­ustan tekur við sér á ný.

Þá eru ótaldar aðgerðir á sviði land­bún­að­ar, nýsköp­un­ar, menn­ingar og íþrótta svo dæmi sé tek­ið. 

Það er mik­il­vægt að muna að það ástand sem við lifum nú er tíma­bund­ið. Það mun einn dag­inn taka enda og hvers­dag­ur­inn tekur aftur við. Þá munum við ekki hafa setið auðum hönd­um, heldur munum við sem sam­fé­lag koma tví­efld til bak­a. 

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þing­flokks­for­maður Vinstri grænna.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search