Með fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar árið 2020, sem ætlað er að auka opinbera fjárfestingu vegna kórónuveirunnar, er tryggður 200 milljóna króna stuðningur ríkisins við úrbætur í fráveitumálum sveitarfélaga – á þessu ári. Unnið er að nánari útfærslu stuðningsins. Ég mun síðan leggja áherslu á að stuðningur ríkisins verði enn meiri á næstu árum.
Úttekt Umhverfisstofnunar frá árinu 2017 sýnir að úrbóta er víða þörf í fráveitumálum á Íslandi. Ef til dæmis er litið til stærri þéttbýlisstaða á landsbyggðinni, þar sem búa fleiri en 2.000 manns, er fullnægjandi skólphreinsun á 9 stöðum af 32. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar frá því haustið 2017 var tekið fram að gera þyrfti átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga – og nú er því hrint í framkvæmd.
Fráveitumál eru afar mikilvæg umhverfismál en aukin hreinsun skólps dregur úr mengun vatns og sjávar. Ég hef lagt ríka áherslu á að gera gangskör í þessum málum. Í fyrra lét ég vinna úttekt á uppsprettum örplastmengunar hérlendis og mér finnst mikilvægt að stuðningurinn nýtist jafnframt til að draga úr henni. Svo er líka til skoðunar hvort og þá hvernig væri hægt að nýta seyru betur sem áburð t.d. í landgræðslu. Það er nú þegar gert með góðum árangri á nokkrum stöðum á landinu, t.d. á Suðurland og í Mývatnssveit.
Fráveituframkvæmdir eru oft umfangsmiklar og dýrar og í sumum tilfellum af þeirri stærðargráðu að útilokað er að smærri sveitarfélög ráði við þær ein. Af þessum ástæðum er stuðningur ríkisins í þessum málaflokki afar mikilvægur. Og um leið er hægt að efla atvinnulífið með auknum framkvæmdum, á tímum þar sem ekki er vanþörf á.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra.