Það er óhætt að segja að áhrif Covid-faraldursins séu með allt öðrum hætti en við hefðum getað gert okkur í hugarlund. Þetta er líklega blindflug sem við höfum ekki getað séð fyrir, þessar stærstu efnahagsþrengingar sem við stöndum núna frammi fyrir í heila öld. Það eru allir mælar á rauðu hvað varðar efnahaginn, en það horfir til betri vegar hvað faraldurinn sjálfan varðar, sem betur fer. Þar hafa almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld unnið þrekvirki og í öllu atinu höfum við orðið áþreifanlega vör við hversu dýrmætt það er að eiga gott opinbert heilbrigðiskerfi og það hefur svo sannarlega staðist álagið. Almenningur hefur líka axlað ábyrgð sína í almannavörnum og það er ekki sjálfsagt eins og dæmin sýna. En það er mikið eftir og við þurfum að sýna þolinmæði og þrautseigju næstu mánuði og misseri og nú er það úthaldið sem skiptir máli. að við látum ekki leiðann vegna alls konar takmarkana verða til þess að við verðum kærulaus og höldum ekki áfram að gæta okkar. Það er ekki í boði.
Stjórnvöld hafa gripið til margvíslegra aðgerða og fleiri eru væntanlegar síðar eins og komið hefur fram. Það er ekki rými hér til að fara nákvæmlega yfir þær allar, en mig langar samt að stikla aðeins á stóru og fara yfir nokkra hluti sérstaklega sem ég tel mikilvæga.
Nú þegar fólk á að halda sig heima og er hvatt til þess að ferðast innan húss verður það skýrara að heimilið er ekki griðastaður fyrir alla eins og það ætti að vera. Því tel ég gríðarlega mikilvægt að byggingu nýs áfangaheimilis Kvennaathvarfsins verður flýtt enda þurfum við að bregðast við þessari auknu þjónustuþörf. Til þess hefur ríkisstjórnin ráðstafað 100 milljónum á þessu ári.
Í fjáraukalögum voru 3 milljarðar settir aukalega í rannsóknir, nýsköpun og skapandi greinar. Í því samhengi vil ég minnast á 100 millj. kr. framlag í Nýsköpunarsjóð námsmanna. Nú þegar mikill samdráttur er í atvinnugrein hvar námsmenn hafa verið fyrirferðarmiklir er mikilvægt að vega á móti fyrirsjáanlegu atvinnuleysi þeirra með ýmsum aðgerðum. Félag stúdenta hefur lagt fram hugmyndir að lausnum vegna þeirrar stöðu sem þeir standa frammi fyrir, m.a. vegna sumarstarfa, sem ég tel vert að hlusta eftir. Viðbótarframlag í Nýsköpunarsjóð námsmanna er ein af aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem er bæði atvinnuskapandi og gefur námsmönnum tækifæri á að nýta menntun sína og dýpka þekkingu.
Mikilvægi fæðuöryggis ætti öllum að vera ljóst á tímum sem þessum. Innlendir grænmetisbændur finna verulega fyrir því nú þegar veitingastaðir og mötuneyti eru lokuð að fólk vill velja íslenskt. Því er þetta kjörinn tími til að styðja sérstaklega við aukna framleiðslu á hollu innlendu grænmeti. Fjárlaganefnd lagði til viðbótarfjármagn við það sem ríkisstjórnin hafði áður lagt til og var samþykkt nú fyrir páskana sem ætlað er að styðja við grænmetisbændur. Þetta er aðgerð sem eykur fæðuöryggi til lengri tíma og gerir matvælaneyslu okkar loftslagsvænni, enda er það fráleitt að flytja inn tómata með tilheyrandi kolefnisspori frá Hollandi þegar hægt er að rækta þá hér á landi. 50 milljónir voru líka settar aukalega í loftslagssjóð til þess að efla nýsköpun í loftslagsmálum. Ég hef trú á því að græn nýsköpun muni skapa góð störf til framtíðar og stuðla að grænni umbreytingu hagkerfisins. Skattgreiðendur framtíðarinnar munu þurfa að greiða niður þær auknu skuldir sem ríkið tekur á sig núna til að mæta þessu höggi. Þess vegna skuldum við þeim að slá ekki slöku við í aðgerðum til að sporna við hamfarahlýnun.
Hlutabótaleiðin sem ráðist var í um leið og ljóst var í hvað stefndi hefur verið mikið í umræðunni. Sú leið er fyrst og fremst hugsuð fyrir fólk en ekki fyrirtæki. Í stað þess að binda úrræðið við hag fyrirtækja og útiloka þannig stóran hóp vinnandi fólks frá því að nýta sér þessi réttindi var ákveðið að hafa úrræðið fyrir starfsfólkið í hvaða grein sem það vinnur og hjá hvaða fyrirtæki sem það vinnur. Að auki voru þau réttindi útvíkkuð til að ná til hópa eins og námsmanna og einstaklinga með tímabundin atvinnuleyfi sem annars hefðu ekki notið þeirra. Þannig er betur komið í veg fyrir atvinnuleysi og bölið sem því fylgir fyrir einstaklinga og samfélagið allt.
Við erum núna vonandi að sigla inn í síðari hálfleik í glímunni við þennan sjúkdóm en efnahagsafleiðingarnar eru rétt að byrja. Eins og við höfum tekist á við sjúkdóminn með samstöðu og þrautseigju þurfa sömu gildi að vera uppi í glímunni við efnahagsáhrifin af því að snögghemla hagkerfið. Það hefur hingað til verið okkur til sóma hér í þessum sal að vera ekki í pólitísku argaþrasi og yfirboðum í þessu alvarlega ástandi og bind ég vonir um að svo verði áfram því að þannig farnast okkur best.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, alþingismaður