PO
EN

Hálendisþjóðgarður: stærsta náttúruverndarverkefni Íslandssögunnar

Deildu 

Á miðhálendi Íslands er að finna einstaka náttúru. Vinstri græn hafa alla tíð lagt ríka áherslu á aukna vernd svæðisins. Þess vegna er stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu eitt af stóru verkefnunum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Hvergi annars staðar á einu og sama svæðinu

Á hálendi Íslands ægir saman beljandi jökulám, fágætum gróðurvinjum, svörtum sandauðnum og fjölbreyttum jarðmyndunum sem finnast hvergi annars staðar í heiminum á einu og sama svæðinu. Ein mesta sérstaða svæðisins er að þar er að finna ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu, og því má segja að okkur Íslendingum beri skylda til að vernda þetta svæði fyrir núverandi og komandi kynslóðir. Hálendið í heild sinni er ótrúleg náttúrusmíð sem sómir sér vel sem þjóðgarður.

Vítamínsprauta fyrir landsbyggðina

Þjóðgarðar hafa mikið aðdráttarafl og bjóða upp á ótal möguleika á efnahagslegum ávinningi á sama tíma og vernd náttúrunnar er höfð að leiðarljósi. Rannsóknir hérlendis hafa sýnt að fjármagn sem ríkið leggur til friðlýstra svæða skilar sér margfalt til baka og hluti af ávinningnum verður eftir heima í héraði. Hálendisþjóðgarður hefur því alla burði til að styðja við byggðirnar í jaðri hans.

Þjóðgarðarnir okkar hafa þegar skapað fjölda heilsársstarfa og einnig tímabundinna starfa yfir háannatíma ferðaþjónustunnar. Sem dæmi má nefna að í Vatnajökulsþjóðgarði eru þrjú heilsársstörf í Jökulsárgljúfrum, eitt í Mývatnssveit, þrjú á Austurlandi, þrettán í Hornafirði og í Öræfum, þrjú á Kirkjubæjarklaustri og fjögur á höfuðborgarsvæðinu sem sinna öllum þjóðgarðinum. Fjöldi landvarða vinnur síðan yfir sumartímann, margir hverjir heimamenn. Alls starfa ígildi ríflega 50 heilsársstarfsmanna í þjóðgarðinum. Vinstri græn hafa alla tíð lagt ríka áherslu á að efla landvörslu og höfum við bætt við um hálfum milljarði á þessu kjörtímabili til þess.    

Þjóðgarðar laða síðan að sér ferðamenn og skapa atvinnu m.a. við gistingu og veitingasölu í nágrenninu, búa til tækifæri fyrir afþreyingarfyrirtæki sem selja ferðir inn í þjóðgarða og svo skapast störf við uppbyggingu innviða og aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum. Ýmis fagleg undirbúningsvinna er gjarnan aðkeypt úr nærumhverfi þjóðgarða, t.d. við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar.

Hálendisþjóðgarður yrði góð landkynning 

Allt bendir til þess að ferðaþjónustan verði mjög illa úti vegna kórónuveirunnar, enda grundvellinum kippt undan greininni þegar fólk hættir að koma til landsins. En aðdráttarafl íslenskrar náttúru er ekki að fara neitt og mun skipta miklu máli þegar fólk tekur að ferðast á nýjan leik. Hálendisþjóðgarður yrði stærsti þjóðgarður í Evrópu og því mjög góð landkynning fyrir Ísland. Hálendisþjóðgarður getur þannig spilað stórt hlutverk fyrir framtíðarhorfur í ferðaþjónustu.

Stærsta framlag Íslands til náttúruverndar

Ég mun leggja fram frumvarp um hálendisþjóðgarð á Alþingi í haust með það að markmiði að stofna þjóðgarðinn á árinu 2021. Frumvarpið byggir á umfangsmikilli vinnu nefndar sem ég skipaði vorið 2018, en í henni sátu fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi og sveitarstjórnarfólks. Breið samstaða var um niðurstöðu nefndarinnar.

Með hálendisþjóðgarði er lagður grunnur að nýjum tímum þar sem tækifæri gefst til að fylkja sér á bak við gildi náttúruverndar en á sama tíma að búa til efnahagsleg verðmæti og skapa störf vítt og breitt um landið. Hálendisþjóðgarður yrði stærsta framlag Íslands til náttúruverndar í heiminum fram til þessa. Það er farsæl nýting náttúruauðlinda.

Greinin birtist fyrst í 1. maí blaði VGR

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search