PO
EN

Allir vildu Lilju kveðið hafa

Deildu 

Líklegast hefur engin ein leið, af þeim fjölmörgu sem gripið hefur verið til vegna efnahagsástandsins, skilað jafn góðum árangri og hlutabótaleiðin. Í mars var útlit fyrir að fjölmörg myndu missa vinnu sína, óvissan í samfélaginu var algjör og á einni viku féllu flugsamgöngur niður um allan heim. Frumvarp um hlutabætur var lagt fram með hraði og því fororði að það þyrfti að taka miklum breytingum í nefnd.

Að því komu þingmenn bæði úr stjórn sem og stjórnarandstöðu, breytingarnar gerðu málið mun betra. Svo ánægð vorum við þingmenn með leiðina að nokkrar deilur urðu um eignarhaldið þar sem allir vildu Lilju kveðið hafa; bæði stjórn og stjórnarandstaða eignuðu sé þetta góða mál. Allir níu fulltrúar í nefndinni skrifuðu undir álit þar sem skýrt kom fram að óvissan væri algjör og því þyrfti úrræðið líklegast að taka „breytingum í samræmi við þá reynslu sem fæst næstu vikur á nýtingu þeirra úrræða sem frumvarpið kveður á um“.

Ríkisendurskoðun hefur nú skilað úttekt á hlutabótaleiðinni sem sýnir hve mikilvæg þessi leið var. Einnig að áhersluatriði allra flokka, að leiðin yrði eins opin og hægt var, hafði ýmsar brotalamir í för með sér. Ekki þarf að rifja upp umræðuna um fyrirtæki sem greiddu sér arð og keyptu hlutabréf í sjálfum sér. Slíkt hefði í raun ekki átt að koma neinum á óvart, að minnsta kosti ekki að sá möguleiki væri fyrir hendi, því úrræðið var viljandi haft opið þannig að það gagnaðist sem flestu launafólki. Sem tókst býsna vel.

Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu að fullt tilefni sé til að endurskoða framkvæmdina og leitast við að úrræðið sé aðeins nýtt af þeim sem þess þurfa með. Það er gert, sem og að styrkja eftirlit með leiðinni. Síðar í dag verður framlenging leiðarinnar til atkvæðagreiðslu á Alþingi. Athugasemdir Ríkisendurskoðunar ríma því vel við það frumvarp og áherslur meirihluta velferðarnefndar.


Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search