Afeitrunardeild fyrir ólögráða ungmenni var opnuð á Landspítala í vikunni. Deildin heyrir undir fíknigeðdeild sjúkrahússins og verður áhersla lögð á fjölskyldumiðaða þjónustu. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir tilkomu deildarinnar langþráða og um mikilvægt framfaraskref að ræða í þjónustu við afar viðkvæman hóp.
„Í málefnum barna sem glíma við neyslu- og fíknivanda kristallast mikilvægi þess að halda utan um barnið og fjölskyldu þess og nánasta umhverfi og hjálpa þeim að vinna sig út úr þessum erfiðleikum. Hér er ekki nóg að hugsa einungis um heilbrigðisþjónustu. Hér þarf að greina vandann og sérsníða lausnir með samvinnu heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og skólaþjónustu. Stundum þarf einnig að styðjast við samvinnu lögreglu. Þessi mál eru í eðli sínu flókin. En hér er svo gríðarlega mikið í húfi“ sagði heilbrigðisráðherra meðal annars við opnun deildarinnar sl. þriðjudag.
Við opnunina fluttu ávörp auk Svandísar þau Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs, Nanna Briem, forstöðumaður geðþjónustu, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Anna Björk Eðvarðsdóttir, formaður Hringsins og Páll Matthíasson forstjóri.
Á nýju afeitrunardeildinni eru tvö meðferðarrými þar sem ungmenni með alvarlegan vímuefnavanda koma til innlagnar í 1 – 3 sólarhringa en eftir það taka við önnur úrræði. Þverfaglegt meðferðarteymi mun sinna ungmennum og aðstandendum þeirra meðan á dvöl stendur í samvinnu við barna og unglingageðdeild spítalans (BUGL). Einnig verður náið samstarf við Barnaverndarstofu og bráðamóttökur Landspítala.
Heilbrigðisráðherra þakkaði þeim fjölmörgu sem komið hafa að undirbúningi að stofnun deildarinnar sem væri krefjandi samvinnuverkefni. Forsenda væri góð samvinna allra sem að málinu koma, þvert á svið spítalans, þvert á kerfi og stofnanir heilbrigðisþjónustunnar annars vegar og félagsþjónustunnar hins vegar. Hún lagði einnig áherslu á hve miklu skipti að hlusta á raddir þeirra sem hafa eigin reynslu af vímuefnaneyslu sem ungmenni: „Við höfum heyrt frá ungu fólki sem var í mikilli vímuefnaneyslu sem unglingar en hefur náð góðum bata og gengur nú vel í lífinu. Þetta unga fólk er til fyrirmyndar og hefur deilt reynslu sinni með okkur til þess að hjálpa okkur að hjálpa öðrum börnum.“
Fjallað er um deildina og undirbúning að stofnun hennar í áhugaverðu myndskeiði á vef Landspítala. Viðmælendur eru Björg Maríanna Bernharðsdóttir deildarstjóri og Snærún Ösp Guðmundsdóttir aðstoðardeildarstjóri.