Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Pétur Ólafsson hafnarstjóri á Akureyri, undirrituðu í morgun samning um styrkveitingu af fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til rafvæðingar hafnarinnar að upphæð 43,8 m.kr, að viðstaddri Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri.
Verkefnið gengur út á að setja upp háspennutengingu fyrir flutningaskip, fiskiskip og minni skemmtiferðaskip við Tangabryggju, en undirbúningur framkvæmda er þegar hafinn. Með raftengingunni dregur úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá skipum í Akureyrarhöfn, sem geta þá tengst rafmagni í landi í stað þess að brenna olíu. Um leið dregur úr hljóðmengun frá skipsvélum og rafstöðvum um borð.
Orkuskipti og loftlagsmál eru nátengd og eru orkuskipti lykilþáttur í aðgerðaáætlun Íslands í loftlagsmálum. Unnið er að orkuskiptum á ýmsum sviðum í samræmi við þingsályktun þar um, sem samþykkt var árið 2017. Má þar nefna verkefni sem lúta að orkuskiptum á hafi og í sjávarútvegi og orkuinnviðum þeim tengdum.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra: „Orkuskipti, þar á meðal í höfnum og haftengdri starfsemi, eru á meðal okkar mikilvægustu umhverfis- og loftlagsmála og einnig mikilvægt efnahagsmál til lengri tíma litið. Ég fagna því alveg sérstaklega þessu samkomulagi í dag, sem samræmist vel þeirri stefnu sem við höfum markað. Við höfum verið að ná athyglisverðum árangri í orkuskiptum á landi, erum í öðru sæti í heiminum í rafvæðingu bifreiðaflotans, og nú er tímabært að sækja fram með orkuskiptum í haftengdri starfsemi.“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra: „Við verðum að vinna að breytingum á öllum sviðum samfélagsins til þess að Ísland geti dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og lagt sitt af mörkum til að draga úr loftslagsbreytingum. Orkuskipti í höfnum eru stór og mikilvæg skref í þá átt.“
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur í samstarfi við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, úthlutað styrkjum til rafvæðingar hafna á níu öðrum stöðum á landinu á þessu ári til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Verkefnið er hluti af fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19 heimsfaraldursins. Sjá einnig frétt um úthlutarnir styrkja til orkuskipta í höfnum.