Afeitrunardeild fyrir ólögráða ungmenni á Landspítala var opnuð þriðjudaginn 2. júní. Afeitrunardeildin heyrir undir fíknigeðdeild Landspítala og mun veita fjölskyldumiðaða þjónustu fyrir ungmenni með alvarlegan vímuefnavanda. Tilkoma deildarinnar er langþráð og mikilvægt framfaraskref í þjónustu við þennan afar viðkvæma hóp. Um er að ræða tvö meðferðarrými þar sem ungmenni með alvarlegan vímuefnavanda koma til innlagnar í 1-3 sólarhringa, en eftir það taka önnur úrræði við. Þverfaglegt meðferðarteymi mun sinna ungmennum og aðstandendum þeirra á meðan á dvöl stendur í samvinnu við barna- og unglingageðdeild, BUGL. Þá er náið samstarf við Barnaverndarstofu og bráðamóttökur Landspítala.
Verkefnið hefur verið undirbúið og unnið í samvinnu margra sviða Landspítala og þvert á stofnanir heilbrigðisþjónustunnar og félagsþjónustunnar. Við undirbúning verkefnisins var einnig leitað til einstaklinga sem hafa reynslu af vímuefnaneyslu en hafa náð bata, til þess að fá ráðleggingar og aðstoð við það að koma deildinni á laggirnar.
Vandi þess hóps sem hér um ræðir er fjölþættur og krefst fjölbreyttra og gagnreyndra úrræða. Engin ein aðferð hentar öllum og mikilvægt er að greina vandann og sérsníða lausnir að hverjum einstaklingi í samstarfi heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og skólaþjónustu. Algengt er að börnin og ungmenni glími einnig við geðheilbrigðisvanda, auk vímuefnavanda, sem og félagslega erfiðleika og því gefur auga leið að við þurfum að horfa á málin heildrænt.
Tækifærin til þess að grípa sterkt inn með heildstæðum forvörnum, geðrækt og snemmtækum íhlutunum sem ná til barna, foreldra, heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og skólaþjónustu eru til staðar en það þarf að grípa þau. Við vitum að helmingur þeirra sem glíma við geðrænan vanda upplifir hamlandi geðræn einkenni við 14 ára aldur, það er, þeim líður það illa að það kemur niður á daglegu lífi þeirra, s.s. hvernig þeim líður heima, hvernig þeim gengur í skólanum, hvernig þeim gengur félagslega og hvernig þeim tekst að takast á við áskoranir daglegs lífs.
Einmitt þess vegna hefur ríkisstjórnin samþykkt að innleiða geðrækt, forvarnir og stuðning við börn og ungmenni í leik-, grunn- og framhaldsskólum landsins. Einnig vinnur stýrihópur stjórnarráðsins í málefnum barna að því að samhæfa og efla alla þjónustu við börn.
Með opnun afeitrunardeildarinnar fyrir ólögráða ungmenni á Landspítala ryðjum við braut fyrir nýja og betri þjónustu fyrir börn og ungmenni með neyslu- og fíknivanda. Okkar sameiginlega leiðarljós í þessu verkefni er farsæld barna og bætt þjónusta við þennan viðkvæma hóp.