PO
EN

Vindorka er hluti af heildarskipulagi orkuvinnslunnar

Deildu 

Raforka framleidd með stórum vindmyllum er með grænan plús þegar búið er að reikna út, með lífsferilsgreiningu, kolefnisspor frá „vöggu til grafar“ og raforkunni sem það skilar er stillt upp á móti raforku sem unnin er með ósjálfbærum hætti. Könnun Landsvirkjunar á orkuframleiðslu tveggja vindmylla hjá Búrfelli bendir til þess að vindorka sé nothæfur viðbótarkostur á Íslandi. Einn myllulundur Landsvirkjunar er í nýtingarflokki svokallaðrar rammaáætlunar og annar í biðflokki en utan áætlunarinnar eru margir stórir myllulundir í skoðun, t.d. í Dalasýslu á vegum erlendra aðila með íslenska samverkamenn, og svo er hið norska Zephyr með tíu staði markaða til skoðunar víða um land. Stórfellt erlent eignarhald vindorkuvera er umhugsunarvert, svo ekki sé meira sagt.

Öll orkuver yfir 10 MW eiga að falla undir rammaáætlun. Um það eru lög nægilega skýr að mínu mati. Annað merkir fullkominn skort á heildarskipulagi og utanumhaldi orkuframleiðslunnar þegar þess er gætt að könnun Zephyr alein nær til vindorkuvera sem myndu framleiða álíka mikið rafafl og öll stærri orkuver landsins, samanlögð. Það væri fráleit framtíðarstaða.

Samvinna innlendra og erlendra vindorkufyrirtækja við sveitarfélög heimilar skipulagsvinnu og hægt er að fá rannsóknarleyfi vegna mælinga og annarra kannana. Dæmigerður vindmyllulundur með 20–30 myllum hefur svipað afl og t.d. Hrauneyjafossvirkjun. Nýjar vindmyllur eru orðnar stærri en myllurnar við Búrfell, allt að 150–200 metra háar, tveir til þrír Hallgrímskirkjuturnar. Nú er brýnt að tryggja sem fyrst heildarskipulagið sem þarf og koma gerlegum myllulundum inn í rammaáætlun og halda fast við þá stefnu að framleiða orku í samræmi við þarfir og orkufrek verkefni í landinu. Annað regluverk, svo sem formleg virkjunarleyfi, mat á umhverfisáhrifum, málefni raforkuflutnings og annað sem fylgir, gildir um vindorkuver. Hvað sem því líður þarf að hafa hraðar hendur, ekki við að beisla vindinn heldur ólma hesta samkeppni frammi fyrir ónógu heildarskipulagi í þessum efnum.

  Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search