PO
EN

Ræða Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur á eldhúsdegi

Rósa Björk

Deildu 

Góðir landsmenn,

Þegar við komum nú fegin undan erfiðum vetri og dæmalausu vori, blasir við okkur erfið sýn. Eftir heimsfaraldur sem er blessunarlega í rénum hér á landi en í vexti í öðrum löndum, horfum við fram á sögulega hátt atvinnuleysi og efnahagssamdrátt. Spáð er einni dýpstu efnahagskreppu á heimsvísu á friðartímum.

Þetta færir mikla ábyrgð á herðar stjórnmálafólks. Við allar aðgerðir verður að hlúa að þeim sem minna mega sín og við verðum að passa upp á fólkið sem hefur misst og mun missa atvinnu sína. Pössum upp á að hér skapist ekki enn meiri stéttskipting þegar fólk tapar tekjum sínum. Að hér verði ekki meira bil á milli þeirra sem eiga mikla fjármuni og þeirra sem ná ekki endum saman. Pössum upp á að börn búi ekki við fátækt. Hér verður að standa vaktina!

Þá skiptir máli að kerfin okkar verji okkur og haldi utan um okkur.

Það er til mælikvarði á hversu manneskjuleg samfélög eru. Hann er sá hvernig við komum fram við þau sem minna mega sín. Hvort við útrýmum fátækt. Hvort og þá hvernig við styðjum við jaðarhópa samfélagsins til að eiga sér mannsæmandi líf með reisn. Hvernig við sköpum fólki tækifæri til að njóta sín. Hvernig við tökum á móti fólki sem til okkar leitar eftir alþjóðlegri vernd undan stríðsátökum, ofsóknum, sárafátækt eða afleiðingum loftlagsbreytinga. Íslenskt samfélag á að taka utan um þau sem minna mega sín með opnum faðmi og tryggja jöfn tækifæri fyrir okkur öll. Sama hvaðan við erum og hver við erum.

Kórónaveiran hefur líka afhjúpað að við erum ekki öll í þessu saman, hversu heitt sem við þráum það. Í Bandaríkjunum og í Evrópu hefur fyrir fram ákveðinni kynþáttahyggju eða  „Racial profiling“, með leyfi Forseta, verið grunnstefið í fjölmennum mótmælum þar síðastliðnar vikur þar sem lögregluofbeldi og fyrir fram ákveðinni kynþáttahyggju hefur verið mótmælt.

Að mismuna fólki fyrir fram sökum hörundslitar brýtur gegn mannréttindalögum. „Racial profiling“ er því grafalvarlegur hlutur. Fræða þarf fólk um þetta hugtak og hvaða áhrif það getur haft. Líka hér. Baráttan gegn kynþáttafordómum er stöðug og við megum aldrei sofna á verðinum.

En gleymum ekki að aðstæðurnar sem blasa nú við, gefa tækifæri til að gera hlutina betur en fyrr.

Sögulegt tækifæri til að staldra við og ákveða með hvaða hætti við viljum vinna gegn atvinnuleysinu og efnahagssamdrættinum en um leið takast á við langstærstu ógn okkar tíma, loftlagsbreytingar.  Hvernig við viljum byggja upp samfélagið á ný eftir áfallið. Þá er lag að við byggjum upp á sjálfbærum grunni og með grænum, umhverfisvænum áherslum.

Nú er tækifærið til að byggja ferðaþjónustuna á ný með það að leiðarljósi að hún grundvallist á umhverfisvernd og sjálfbærni. Aðal aðdráttarafl Íslands er íslensk náttúra. Hana ber að verja og vernda fyrir hvers kyns ágangi, en um leið tryggja að við höfum öll tækifæri til að skoða hana og uppgötva á ábyrgan hátt af virðingu og umhyggju.

Það skiptir miklu máli að við freistumst ekki af leið framsýnna umhverfisvænna lausna við þá atvinnuuppbyggingu sem við verðum að ráðast í. Stöndum við skuldbindingar okkar við Parísarsamkomulagið, eins og kynnt var í dag og sýnum framsýni og djörfung í umhverfismálunum.  

Finnum efnahagslegan farveg, hvata og lausnir fyrir sjálfbærri og grænni efnahags -og atvinnuuppbyggingu. Stuðningur ríkisins verður að vera mun stærri og markvissari við aðgerðir í loftlagsmálum og stefnan til að sporna við loftlagsbreytingum verður að vera enn skýrari og djarfari. Nýsköpunin eftir kórónaveirufaraldurinn verður að vera græn.

Áhersla á umhverfisvænar lausnir í matvælaframleiðslu, tækninýjungar hverfist um grænt hugvit. Fjárfestingar verði í enn meira mæli grænar í sjálfbærum, loftlagsvænum verkefnum.

Þetta sjáum við um alla Evrópu. Þar leggja ríkisstjórnir gríðarlega áherslu á grænar efnahagsaðgerðir. Umhverfismálum má ekki vera ýtt til hliðar, þvert á móti, þau eiga að vera í algjörum forgrunni nú sem aldrei fyrr. Sýnin á að vera skýr. Það samfélag sem við viljum byggja upp verður að vera byggt upp með mannúðlegum og grænum lausnum til framtíðar.

Við krefjandi aðstæður sem nú ríkja og við blasa, skiptir öllu máli hvernig viðbrögð okkar eru og hvaða ákvarðanir við tökum. Hvernig við bregðumst við sem stjórnmálafólk og samfélag allt. Það er stóra verkefnið okkar. Það á að vera ein af ástæðunum af hverju við erum í stjórnmálum.

Ég óska okkur öllum velfarnaðar í verkefnum okkar framundan.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search