PO
EN

Ræða heilbrigðisráðherra um breyttar sóttvarnareglur 14. ágúst

Deildu 

Hér eftirfarandi er ræða mín af blaðamannafundi dagsins, þar sem ríkisstjórnin kynnti breyttar reglur um skimun á landamærum.

Ég ætla hér að hafa nokkur orð um stöðuna innanlands, og eins og forsætisráðherra kom inn á þá eru meginmarkið okkar þau að ná tökum á faraldrinum hér innanlands, með það fyrir augum, hér eftir sem hingað til, að halda þessari bylgju sem við erum á núna, þannig að heilbrigðiskerfið okkar ráði við hana og til þess að verja okkar viðkvæmasta fólk. Það gildir það sama eins og í vor.

Það gildir líka, sem verður aldrei of oft endurtekið, og hefur verið farið yfir á 100 fundum, eftir því sem mér skilst, að einstaklingsbundnar smitvarnir, sem heitir nú bara í daglegu tali að muna að þvo sér um hendurnar, er kannski það sem skiptir mestu máli þegar við erum að tala um að ná tökum á faraldri. Að þvo sér um hendurnar, spritta sig og gæta að fjarlægðarreglunni. Þetta eru ákvarðanir sem hver og ein manneskja tekur oft á dag, alla ævi, þ.e.a.s. hvernig gæti ég að mínum smit- og sóttvörnum. Ef hvert og eitt okkar tekur skynsamlega og rétta ákvörðun í þessu efni þá hemjum við faraldurinn best. Það er alveg sama hvað stjórnvöld segja og gera, það er alveg sama hvaða reglur við setjum, hvaða auglýsingar eru birtar, hvaða fínu skjáauglýsingar eru gerðar – ef við pössum ekki hvert og eitt upp á það að fara að þessum grundvallarreglum.

Ég segi við mitt fólk að þegar við skiptum um rými, þegar við komum inn að utan, hvort sem við höfum verið í vinnunni, úti í bíl eða í skóla eða hjá vinum eða hvað, það fyrsta sem við gerum þegar við komum inn er að þvo okkur um hendurnar. Ef þessi ákvörðun væri tekin tíu sinnum oftar á Íslandi en hún er tekin í dag, tíu sinnum oftar í næstu viku og tíu sinnum oftar í þarnæstu viku þá erum við sennilega með sterkari verkfæri til að hamla útbreiðslu faraldurs en allar reglur samanlagt. Því vil ég leggja áherslu á þetta.

Ég vil líka leggja áherslu á það að hér eftir sem hingað til höfum við á Íslandi borið gæfu til þess að taka ákvarðanir sem eru tiltölulega lítið íþyngjandi fyrir samfélagið, vegna þess að við leggjum mikla áherslu á það að samfélagið okkar sé í gangi; að það virki og fólk sé að hittast, tala saman og að við höldum áfram að vera til eins og við höfum margoft sagt, með því að fara að ráði okkar besta fólks, það viljum við líka gera. Vegna þess að það er ákvörðun, og það er líka ákvörðun sem er pólitísk, að leyfa stjórnmálunum að vera í aftursætinu þegar komið er að vísindalegum viðfangsefnum. Að gera kröfu um það að setja sjálfan sig í annað sæti, þegar komið er að vísindalegum áskorunum. Ég tala ekki um áskoranir af þessu tagi sem snýst um það að við erum að byggja ákvarðanir okkar á stigvaxandi þekkingu, ekki bara frá mánuði til mánaðar, heldur frá degi til dags.

Við vitum meira í dag, föstudaginn 14. ágúst, heldur en við vissum föstudaginn 7. ágúst. Við vitum miklu meira um þessa veiru en við vissum fyrir mánuði og við þurfum að hafa auðmýktina og traustið, hvert á öðru og samfélaginu til þess að skipta um skoðun og taka nýjar ákvarðanir. Til þess að segja, já, nú þurfum við að stíga skref til baka eða við þurfum að stíga nýtt skref áfram. Þetta er stigvaxandi þekking, hún er ný á hverjum degi, og það er þannig sem vísindin virka. Vísindin og rannsóknirnar hafa aldrei hið endanlega svar og við þurfum að hafa sveigjanleika sem stjórnvöld og sem samfélag til þess að fylgja eftir þessum sjónarmiðum. Það hefur verið okkar gæfa hingað til og það vil ég að sé áfram okkar markmið.

Samfélag er nefnilega ekki bara hagtölur. Samfélag er ekki bara ríkisreikningurinn eða hagvöxturinn. Það er svo óendanlega mikils virði að samfélagið virki þannig að okkur líði vel í því. Sumt af því er þannig að við getum ekki einu sinni sett á það eitthvert hagrænt mat, þó að það fari ægilega í taugarnar á okkur í stjórnmálunum að geta ekki sett hagrænt mat á allt þá er sumt þannig að það er einfaldlega ekki hægt. Það er það að lifa og hrærast í öflugu og opnu samfélagi. Það er samfélag þar sem eru sterkir skólar, öruggt og öflugt heilbrigðiskerfi og þar sem menningarlífið blómstrar á hverjum einasta degi. Svoleiðis samfélag viljum við byggja og allar okkar ákvarðanir eru með það bakvið eyrað, að samfélagið okkar sé þannig. Ég veit ekki hvort við erum orðin þreytt á því að segja það en ég ætla að segja það einu sinni enn – við erum öll almannavarnir og það gildir í dag, það mun gilda enn um sinn og ef við hjálpumst að munum við komast í gegnum þetta saman.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search