Kæru félagar!
Velkomin á þennan rafræna flokksráðsfund. Vitaskuld hefði verið ánægjulegra að vera með ykkur á hinum fagra Ísafirði en við gerum ekki betur en þetta við núverandi aðstæður. Aðalmálið er að við náum saman hér í kvöld. Ég hef fylgst full aðdáunar með starfi málefnahópa hreyfingarinnar sem hafa fundað alla þessu viku með rafrænum hætti og þar með tileinkað sér verðmæta nýja færni. Þannig vinnum við í stjórnmálahreyfingu á pestartíð; þetta er öðruvísi en sýnir að við höfum öll þurft að laga okkur að nýjum aðstæðum og bregðast við með nýjum hætti.
Sá faraldur sem nú hefur geisað mánuðum saman um víða veröld hefur haft áhrif á líf okkar allra hér á landi. Allt frá því að fyrstu smitin greindust hér þann 28. febrúar og samkomutakmarkanir voru settar hér á landi þann 15. mars í fyrsta sinn í lýðveldissögunni. Þær tóku að sjálfsögðu mið af aðgerðum erlendis en við reyndum þó að feta okkar eigin braut.
Leiðarljós íslenskra stjórnvalda hefur frá upphafi verið að forgangsraða heilbrigði þjóðarinnar og því hefur verið gripið til töluverðra sóttvarnaráðstafana til að hefta útbreiðslu faraldursins, meðal annars vegna þess að hann er nýr og enn ekki alveg fyllilega ljóst hve skæð þessi veiki er. Annað leiðarljós hefur verið að lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif faraldursins bæði til skemmri og lengri tíma þannig að þau hafi sem minnst áhrif á lífgæði almennings, bæði núna strax og þó ekki síður til langtíma.
Það var stór og mikilvæg samfélagsleg ákvörðun að halda skólum landins opnum. Á Norðurlöndum voru það eingöngu Ísland og Svíþjóð sem héldu bæði leik- og grunnskólum opnum og í Evrópu misstu börn að verulegu leyti af vorönninni. Sama má segja um Bandaríkin. Raunar var svo langt gengið í sóttvarnaráðstöfunum sums staðar að börn voru lokuð inni vikum saman þar sem útgöngubann ríkti. Þá braut vildum við ekki feta og tókum ákveðna áhættu sem þó var grundvölluð á mati sérfræðinga. Skrifað var í erlenda fjölmiðla um þessa sérstöðu Íslendinga. En við mátum hagsmuni barnanna þannig að hættan af því að missa af menntun væri í þetta sinn meiri en ógn sjúkdómsins. Þetta var stór samfélagsleg ákvörðun sem mun skipta miklu fyrir börn og ungmenni en hún var líka efnahagsleg því hún tryggði það að fólk gat áfram sótt vinnu.
Önnur stór og mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg ákvörðun felst í nýrri fjármálastefnu sem við höfum lagt fram á Alþingi. Þar kynnum við þá ákvörðun að ráðast ekki í niðurskurð hjá ríkinu heldur þvert á móti stöndum við vörð um heilbrigðis- og velferðarkerfið sem hefur þó áður verið eflt mikið á þessu kjörtímabili. Og eins og þessi faraldur hefur sýnt þá hefur það sýnt sig hversu mikilvægt það var að ríkisstjórnin hefur frá fyrsta degi fylgt stefnu okkar Vinstri grænna um að byggja upp og efla heilbrigðiskerfið og stuðla að aukinni samvinnu og skýrri verkaskiptingu innan þess.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa þar að auki snúist um að skapa störf, verja störf og tryggja afkomu. Ein stærsta aðgerðin fólst í hlutastarfaleiðinni sem varði lífsafkomu og atvinnu tuga þúsunda en auk þess var ráðist í margháttaðar stuðningsaðgerðir fyrir íslenskt atvinnulíf til að verja störf og vinna gegn atvinnuleysi.
Þá hefur verið ráðist í umfangsmiklar vinnumarkaðsaðgerðir; sumarstörf fyrir stúdenta, menntatækifæri fyrir atvinnuleitendur, lenging á tekjutengda tímabilinu, framlenging launa í sóttkví og framlenging á hlutastarfaleið. Aðgerðirnar eru umfangsmiklar og kostnaðarsamar en þær eru algert forgangsmál þessarar ríkisstjórnar.
Ég hlýt líka að nefna sértækar félagslegar aðgerðir, stuðning við tekjulágar fjölskyldur til að börn geti sinnt tómstundum, sérstakan viðbótarstuðning við tekjulága í hópi aldraðra, og barnabótaauka. Styrkur til Kvennaathvarfsins og Stígamóta.
Ég er líka stolt af öðrum aðgerðum okkar. Umfangsmiklar og fjölbreyttar fjárfestingar á árinu 2020 þar sem við höfum beitt krafti ríkisfjármálanna til að skapa störf og aukin lífsgæði bæði í nútíð og framtíð: Grænum lausnum, samgöngumannvirkjum, grunnrannsóknum, nýsköpun, byggingaframkvæmdum, stafrænum lausnum og skapandi greinum. Framlög til opinberra fjárfestinga eru 80 prósentum hærri í ár en þau voru 2017 þegar ríkisstjórnin tók við. 80% hærri.
Kæru félagar.
Baráttan við veiruna snýst ekki bara um sóttvarnir og efnahagsmál. Það er líka mikilvægt að ræða um borgaraleg réttindi við svona aðstæður. Sem betur fer hefur umræða um þau vaknað að undanförnu, , mun seinna en ég átti von á. Vissulega hafa sóttvarnaráðstafanir haft áhrif á réttindi landsmanna þó að óvíða í Evrópu hafi frelsi manna verið takmarkað minna en hér á landi seinustu sex mánuði. Óvíða takmarkað minna vegna þess að þannig vildum við hafa það.
Það hversu hratt fólk kemst yfir landamæri Íslands er ekki það eina sem máli skiptir, líta þarf til samfélagsins alls. Það þarf að líta til skólastarfs, menningar- og íþróttastarfs – en eins og ég fór yfir áðan hefur skólastarf óvíða raskast minna en hér – og vega og meta þær umtalsverðu hömlur sem settar hafa verið á atvinnuréttindi þúsunda manna. Mestu takmarkanirnar hafa snúist um hjúkrunarheimili sem hafa verið vernduð hér á landi, tugþúsundir eldri borgara og þeir sem haldnir eru alvarlegum sjúkdómum hafa mátt búa við verulega félagslega einangrun og skert lífsgæði af þeim sökum.
Kæru félagar,
Baráttunni við veiruna er hvergi nærri lokið. En þegar henni lýkur er okkar markmið að hægt verði að segja að saman hafi okkur tekist að vernda heilsu, efnahag og frelsi okkar þannig að þjóðlífið allt verði fyrir sem minnstum skaða og þjóðinni takist að vinna hratt til baka það sem tapast hefur í þessum faraldri. Í opnu lýðræðissamfélagi er mikilvægt að fram fari umræða um ólíka þætti þessarar baráttu og eðlilegt að það sé rætt með gagnrýnum hætti hvernig gripið er inn í daglegt líf fólks og hvernig efnahagslífi þjóðarinnar verði sem best borgið.
Kæru félagar,
Ríkisstjórnin mun kynna áframhaldandi fjárfestingaátak samhliða fjárlögum og fjármálaáætlun þar sem ríkissjóði verður beitt af fullu afli til að skapa störf og auka verðmætasköpun.
Markmiðið er skýrt: Við ætlum að vaxa út úr kreppunni og standa um leið vörð um heilbrigðis- og velferðarkerfi og tryggja þeim sem standa frammi fyrir atvinnumissi ný tækifæri, ýmist til að sækja sér menntun eða taka að sér ný störf.
Þegar við lítum til baka til vorsins getum við öll verið sammála um að íslenskt samfélag sýndi sveigjanleika og seiglu og komst þannig í gegnum fyrstu bylgju faraldursins án þess að jafn mikið væri lagt á fólk og í sumum öðrum Evrópulöndum. Og við munum líka komast í gegnum aðra bylgjuna sem nú gengur yfir.
Kæru félagar
Að vera við stjórnvölinn á tímum heimsfaraldurs er öðruvísi verkefni en á heldur venjulegri tímum.
Á þessum tímum afhjúpast nefnilega hinir svokölluðu sterku leiðtogar sem venjulega hafa öll svör á reiðum höndum. Þessi svör reynast vera buldur og mas sem ekkert merkir, falskar lausnir við ímynduðum vanda. Á hinn bóginn standa ráðamenn sterkari eftir sem hafa kjark til að viðurkenna að þeir hafa engar töfrulausnir og viðurkenna að þeir standa frammi fyrir tröllauknu verkefni sem kallar á það að geta brugðist við síbreytilegri stöðu en sýnt um leið í verki að þeir fylgja skýrum leiðarljósum í þágu almennings.
Ríkisstjórn Íslands hefur sýnt nákvæmlega það í verki – við settum okkur skýr leiðarljós um að forgangsraða heilsu og lífi fólks og lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif faraldursins. Þessum leiðarljósum höfum við fylgt í öllum okkar aðgerðum og ætlum okkur að skila því verki að íslenskt samfélag verði vel í stakk búið til að vinna aftur það sem hefur tapast í faraldrinum og standi sterkara á eftir.
Kæru félagar.
Eftir þrjár vikur eru kosningar. Ekki þingkosningar heldur sveitarstjórnarkosningar í nýju sameinuðu sveitarfélagi; Austurlandi! Ég hvet okkur til dáða í þessum kosningum og hef fulla trú á því að málflutningur okkar flottu frambjóðenda muni ná eyrum íbúa fyrir austan – skýr áhersla á félagslegt réttlæti og náttúruvernd, sóknarfæri fyrir sameinað sveitarfélag, nýsköpun og þekkingu. Gangi okkur vel!
En eftir ár eru kosningar til Alþingis
Hvað ætlum við Vinstri-græn að segja þá?
Áður en við svörum þeirri spurningu er kannski ágætt að rifja upp hvað við sögðum fyrir síðustu kosningar. Þar sögðum við skýrt að stóru málin væru heilbrigðis- og loftslagsmál, vinnumarkaðsmál og að ná stjórnmálalegum stöðugleika. Það voru okkar kosningamál.
Undir okkar forystu höfum við byggt upp í heilbrigðiskerfinu okkar allra. Það skipti svo sannarlega máli þegar faraldurinn skall á að byggt hafði verið upp í kerfinu. Íslenskt heilbrigðiskerfi og starfsfólk þess stóðst þessa áskorun með miklum glæsibrag.
Undir okkar forystu höfum við ráðist í fyrstu raunhæfu og raunverulegu aðgerðirnar til að vinna gegn loftslagsvánni. Þó að heimsfaraldurinn hafi tekið upp bæði orku og tíma það sem af er þessu ári höfum við ekki slegið slöku við í þessu mikilvæga máli og aukum enn við grænar fjárfestingar til að sporna gegn efnahagslegum áhrifum faraldursins. Starf þessarar ríkisstjórnar í þessum málaflokki hefur sannarlega verið byltingarkennt.
Undir okkar forystu hefur verið unnið að réttlætismálum sem mörg hver má finna í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna lífskjarasamninganna. Lengra fæðingarorlof, stuðningur við fyrstu kaupendur, þriggja þrepa skattkerfi, harðari rammi um félagsleg undirboð: Allt eru þetta mál sem ýmist er lokið eða verður lokið að ári.
Og síðan má nefna mál sem við töluðum kannski ekki mikið um fyrir síðustu kosningar en eru órofa hluti af gildum okkar og stefnu. Eins og ný löggjöf um kynrænt sjálfræði og ný löggjöf um þungunarrof sem styrkir frelsi og sjálfstæði kvenna yfir eigin líkama.
Málefnalegur árangur er það sem VG hefur skilað það sem af er þessu kjörtímabili og við getum öll verið stolt af. Árangur sem við hefðum ekki náð í stjórnarandstöðu. Árangur sem ekki hefði náðst ef til dæmis samstarfsflokkar okkar og til dæmis Miðflokkurinn hefði verið einir í ríkisstjórn með sína 33 þingmenn.
Og svo er það stöðugleikinn. Sem stjórnarandstaðan reynir að kalla kyrrstöðu og íhald.
Við skulum ekki gleyma tvennum ótímabærum kosningum sem blásið var til 2016 og 2017 og ákall almennings um frekara samstarf stjórnmálamanna og auknum vilja til að leysa mál fremur en að hnýta nýja hnúta.. Við svöruðum því kalli og höfum sýnt í verki að við erum ekki rokgjarnt efni. Ekki meðan við náum málefnalegum árangri sem við getum vel við unað. Stöðugleiki felst nefnilega ekki aðeins í þröngum pólitískum skilningi þess orðs. Heldur einnig í því að bæta og styrkja innviðina, velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið, skólana og samgöngurnar. Stöðugleiki sem styrkir allt samfélagið.
Og gleymum því ekki að það var stöðugt stjórnarfar sem skilaði mestu umbótum tuttugustu aldar í heilbrigðis- og velferðarkerfum, ekki þarf annað að líta til Norðurlandanna til að sjá það. Og það er áhugavert að sjá fyrrum leiðtoga sænskra Sósíaldemókrata, Hakon Juholt, lofa núverandi ríkisstjórnarsamstarf í viðtali við Boga Ágústsson (5.20), því það þurfi fyrst og fremst að taka utan um þjóðina
Kæru félagar.
Sá árangur sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur skilað í tveimur ríkisstjórnum; 2009-2013 og frá 30. nóvember 2017 sýnir að við erum stjórnmálahreyfing sem getur unnið með flestum og skilað góðu verki í hús.
Það er áberandi hvernig stjórnarsamstarfið er gagnrýnt út frá fyrirframgefnum hugmyndum um að slíkt samstarf geti ekki gengið. Þá gagnrýni óttast ég ekki. Mér finnst hún byggja á hugmyndum um blokkapólitík 20. aldar sem kjósendur hafa í raun aldrei greitt atkvæði með og sem á ekki heima í framtíð sem byggist á fjölbreytni – framtíð þar sem við þorum að tengja á milli ólíkra flokka og hreyfinga til að ná árangri fyrir samfélagið allt. Það er eina leiðin til að sporna gegn þeim sem eru í stjórnmálum fyrst og fremst til að sundra og kljúfa og hafa verið að sækja í sig veðrið í stjórnmálum um allan heim.
Ég er ekki í stjórnmálum til að hneykslast á illsku annarra eða tala endalaust um allt sem þurfi að vera öðruvísi án þess að gera nokkurn tímann neitt í því. Mér hugnast ekki að láta tækifæri til að gera samfélagið betra hjá líða til þess eins að hafa ímyndaða siðferðislega yfirburði. Því lengur sem ég er í stjórnmálum, því minni ánægju hef ég af illa samsettum orðum sem byggja ekki á gildum eða stefnu heldur fyrst og fremst stemmingu dagsins. Ég er í stjórnmálum til að ná árangri fyrir samfélagið – og mig grunar að það eigi við um okkur fleiri. Vegna þess að samfélagið þarfnast félagslegra áherslna, heimurinn þarfnast grænnar pólitíkur.
Verkefni þessa fundar og næsta árs er að byggja á þessum verkum og árangri og leggja fram framtíðarsýn okkar fyrir kjósendur á komandi ári. Framtíðarsýn um sjálfbærni, réttlæti og jafnrétti. Framtíðarsýn sem leiðir okkur inn í samfélag þar sem efnahagslífið hvílir á fjölbreyttum stoðum, þar sem menntun og rannsóknir grundvalla alla okkar verðmætasköpun, samfélag þar sem jöfnuður er mikill, velsæld er mikil, þar sem náttúran fær að njóta vafans og við leggjum okkar af mörkum í samfélagi þjóðanna til að tryggja mannréttindi og umhverfisvernd. Það starf er hafið en því má ekki ljúka á næsta ári.