Talið er að þriðjungur matvæla í heiminum fari til spillis. Samkvæmt rannsóknum sem hafa verið gerðar á matarsóun hér á landi á undanförnum árum er ekkert sem bendir til þess að matarsóun sé minni hér á landi en annars staðar í heiminum. Sóunin á sér stað á öllum stigum virðiskeðjunnar, allt frá ræktun til framleiðslu og neyslu. Þannig er sóunin ekki bara á ábyrgð neytenda, heldur líka framleiðenda, flutnings- og söluaðila og veitingamanna. Það má því segja að samfélagið allt beri ábyrgð á því að takast á við vandann en að sama skapi höfum við líka öll hag af því að gera betur.
Matarsóun er loftslagsmál
Þegar matur fer til spillis er það sóun á sameiginlegum auðlindum okkar allra, fjármunum og tíma. Loftslagsávinningur er af því að draga úr matarsóun. Við matvælaframleiðslu losna nefnilega gróðurhúsalofttegundir og ef matvælanna er ekki neytt þá hefur sú losun orðið til einskis. Ofan í kaupið myndast metan þegar matarúrgangur brotnar niður, sem er ein þeirra gróðurhúsalofttegunda sem veldur loftslagsbreytingum. Þess vegna er matarsóun loftslagsmál. Minni matarsóun er enda á meðal aðgerða sem lagðar hafa verið fram í Aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og uppfærð var í júní.
Aðgerðir til þess að draga úr matarsóun eru líka liður í því að styðja við myndun hringrásarhagkerfis, en það er málefni sem ég hef lagt áherslu á í ráðherratíð minni. Í hringrásarhagkerfi er leitast við að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi sem síðan er hent. Að nýta það sem nýta má, gera við það sem bilar, endurnota, endurframleiða, endurvinna og deila, og nota svo úrgang sem myndast sem hráefni í nýja framleiðslu. Þannig er t.d. molta mynduð úr lífrænum úrgangi eins og matarleifum og hún er notuð sem áburður. Myndun hringrásarhagkerfis getur skapað ný tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf, hlíft náttúrunni og sparað almenningi óþarfa útgjöld.
Samstillt átak samfélagsins alls
Í lok síðasta árs skipaði ég starfshóp til að móta tillögur að aðgerðum gegn matarsóun á Íslandi. Í honum sátu fulltrúar neytenda, atvinnulífsins, félagasamtaka, ungs fólks og stjórnvalda. Fulltrúarnir höfðu innsýn inn í ólíka hlekki virðiskeðju matvæla; framleiðslu, vinnslu, sölu og neyslu. Um mitt sumar fékk ég svo tillögur hópsins afhentar og voru þær um leið lagðar í samráðsgátt stjórnvalda.
Hópurinn setti fram tillögur að 24 aðgerðum til þess að draga úr matarsóun og snúa þær ekki síst að því að auka samstarf atvinnulífs og stjórnvalda um málefnið. Sóun matvæla er enda flókið úrlausnarefni sem krefst margvíslegra ráðstafana og samstillts átaks. Hópurinn leggur áherslu á að atvinnulífið setji málefnið í forgang innan sinna vébanda. Á sama tíma leggi stjórnvöld lóð sín á vogarskálarnar með því að efla nýsköpun, innleiða hagræna hvata, gera átak í menntun og fræðslu, mæla umfang matarsóunar árlega og endurskoða regluverk.
Helmingi minni matarsóun árið 2030
Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu er nú unnið úr ábendingum sem bárust við tillögurnar á meðan þær voru í samráðsgátt stjórnvalda. Af aðgerðunum 24 sem hópurinn leggur til eru 14 á ábyrgð ríkisins og 10 á ábyrgð atvinnulífsins. Saman eiga þær að stuðla að því að draga úr matarsóun á næstu árum, þannig að árið 2030 hafi hún minnkað um helming í allri virðiskeðjunni. Þannig hafa bæði fyrirtæki og almenningur mikilvægu hlutverki að gegna. Sem vörðu á miðri leið leggur hópurinn til að stefnt verði að 30% samdrætti fyrir árið 2025. 50% markmiðið er í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 12, um að minnka sóun matvæla. Það markmið nær þó einungis til neytenda og smásölu, en markmiðið í tillögum starfshópsins íslenska til allrar virðiskeðjunnar.
Hvorki raunhæft né skynsamlegt að henda mat
Í heimi þar sem fólki fer fjölgandi og náttúran er undir miklu álagi, m.a. vegna stóraukinnar matvælaframleiðslu, er ekki raunhæft að halda áfram að henda þriðjungi þess sem við framleiðum.
Það er hvorki sjálfbært, né hagkvæmt, heldur hreint út sagt galið.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.