PO
EN

Aðgerðaáætlun stjórnvalda í plastmálum mikilvægt skref

Deildu 

Í dag verður gefin út aðgerðaáætlun stjórnvalda í plastmálefnum. Þar eru lagðar fram 18 aðgerðir sem hafa þrenns konar tilgang. Í fyrsta lagi að draga úr notkun plasts í samfélaginu, í öðru lagi að auka endurvinnslu á plasti og í þriðja lagi að sporna gegn plastmengun í hafi. Meira en helmingur aðgerðanna er þegar kominn til framkvæmda.

Hvers vegna?

Plast sem endar í umhverfinu veldur neikvæðum umhverfisáhrifum, ekki hvað síst í hafinu. Stundum taka dýr plastið í misgripum fyrir fæðu eða þá að þau festa sig í því, þannig að það veldur þeim skaða eða jafnvel dauða. Örplast sem lífverur innbyrða safnast jafnframt fyrir í þeim og færast upp fæðukeðjuna. Þá hafa agnarsmáar plastagnir fundist í drykkjarvatni um allan heim, líka á Íslandi, þó ekki sé enn vitað hvort eða hvaða áhrif það hafi á heilsu fólks. Það má því ljóst vera að brýnt er að grípa til aðgerða og draga úr streymi plasts út í umhverfið.

Notum minna plast

Meðal þess sem núverandi stjórnvöld hafa þegar komið til leiðar er bann við afhendingu burðarpoka úr plasti og bann við markaðssetningu ýmissa einnota plastvara, en Alþingi samþykkti frumvörp mín þess efnis í fyrra og nú í byrjun sumars. Allt eru þetta skref í rétta átt. Til þess að auðvelda neytendum að fá matvæli afgreidd í eigin margnota umbúðir hefur Matvælastofnun útbúið leiðbeiningar fyrir verslanir og veitingastaði um hvernig skuli standa að því. Þar er einnig að finna góð ráð til þeirra sem vilja versla umbúðalaust og það vona ég að sem flest geri sem oftast, við þurfum bara að passa hreinlæti og sóttvarnir. Nú er líka genginn í garð Plastlaus september, sem ég hvet reyndar öll til þess að hafa í hávegum sama hvaða mánuður er.

Aukum endurvinnslu á plasti

Stundum verður ekki hjá því komist að nota plast en þá þarf að tryggja að það komist í réttan farveg að notkun (og endurnotkun) lokinni. Í vetur mun ég leggja fram frumvarp á Alþingi þar sem m.a. er lagt til að flokkun úrgangs verði gerð að skyldu, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Í frumvarpinu verður að sama skapi tekið á máli sem mikið hefur verið kallað eftir í gegnum tíðina; en það er að samræma flokkun á landinu öllu. Með því þarf ekki að læra að flokka upp á nýtt þótt maður fari á milli bæjarfélaga.

Pössum upp á hafið

Fyrir þjóð sem byggir afkomu sína að stórum hluta á fiskveiðum er mikilvægt að standa vörð um heilbrigði hafsins. Við höfum á síðustu árum fengið vísbendingar um stöðu plastmengunar í kringum landið, til dæmis með vöktun rusls á ströndum og rannsóknum á fýl og kræklingi, en þó er þekkingin langt í frá fullnægjandi. Úr því þarf að bæta, til að mynda með eflingu grunnrannsókna á plastmengun. Aðgerðaáætlunin gerir ráð fyrir því. Þá þarf líka að efla strandhreinsun, en fjöldi sjálfboðaliða vinnur að slíkum verkefnum ár hvert, að ógleymdum öllum þeim sem plokka rusl og leggja drjúgan skerf til þess að draga úr plastmengun í hafi.

Þar sem frárennsli er ein helsta uppspretta örplasts í hafi mun bætt skólphreinsun á komandi árum skipta sköpum. Á næsta áratug mun ríkið aðstoða sveitarfélög svo ráðast megi í frekari endurbætur á fráveitukerfum og framkvæmdir meðal annars til þess að hefta losun örplasts í hafið. Auglýst verður eftir verkefnum strax í haust.

Höldum áfram að leita lausna

Aðgerðirnar sem settar eru fram í aðgerðaáætluninni sem gefin er út í dag byggja á tillögum samráðsvettvangs sem ég skipaði árið 2018 en þar áttu sæti fulltrúar stjórnvalda, atvinnulífs, félagasamtaka og þingflokka á Alþingi.

Enn ein tillagan sem á rætur sínar að rekja til þessa samráðsvettvangs er viðurkenningin Bláskelin sem veitt er fyrir framúrskarandi plastlausar lausnir sem stuðla að minni plastnotkun og plastúrgangi í samfélaginu. Hana veitti ég í fyrsta sinn síðasta haust en nú er hún orðin árleg og verður veitt í annað sinn í dag.

Aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í plastmálefnum er mikilvægt skref í baráttunni gegn plastmengun og ég hlakka til að vinna áfram að framgangi hennar. Plastmengun er alþjóðleg umhverfisvá og að mínu mati er mjög brýnt að ráðast í gerð alþjóðlegs samnings til að draga úr og fyrirbyggja losun plasts og örplasts í hafið. Norðurlöndin hafa beitt sér sameiginlega fyrir þessu máli. Það eru því fjölmörg verkefni framundan innanlands og utan. Megi okkur vegna vel í þessari baráttu – saman getum við breytt til hins betra.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search