Íslendingar ferðuðust um landið sitt sem aldrei fyrr í sumar og nutu einstakrar náttúru. Það er ómetanlegur auður að hafa lítt snortna náttúru, víðerni, fossa og fjöll rétt innan seilingar alls staðar á landinu. En þessi auðævi eru ekki sjálfsögð og við þurfum að gæta þeirra vel.
Átak í friðlýsingum
Árið 2018 hratt ég af stað átaki í friðlýsingum sem unnið er í samstarfi Umhverfisstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Með átakinu hafa nú þegar 12 svæði verið friðlýst. Þeirra á meðal eru Goðafoss, Búrfell og Búrfellsgjá, Jökulsá á Fjöllum, háhitasvæði Brennisteinsfjalla, Kerlingarfjöll – og sjálfur Geysir. Útlit er fyrir að margar fleiri friðlýsingar verði að veruleika á næstu misserum.
Til hvers að friðlýsa?
Með friðlýsingum er stuðlað að því að lífríki fái að þróast á eigin forsendum, að jarðmyndunum sé ekki raskað og náttúrufegurð haldist ósnortin. En friðlýst svæði hafa líka mikið aðdráttarafl og eru í mörgum tilfellum helstu áfangastaðir ferðamanna á Íslandi. Þannig skapa þau tækifæri fyrir fólk um leið og þau sjá náttúrunni fyrir vernd. Rannsóknir sýna að friðlýst svæði skila efnahagslegum ávinningi sem að hluta til verður eftir heima í héraði. Ég tel að mikil sóknarfæri felist í friðlýsingum fyrir ferðaþjónustuna í landinu þegar kórónuveirufaraldrinum slotar, ekki síst í stofnun Hálendisþjóðgarðs, en aðdráttarafl hans sem stærsta þjóðgarðs Evrópu yrði mikið.
Auði fylgir ábyrgð
Ég verð sjaldan eins stoltur og þegar ég skrifa undir friðlýsingar, því ég veit að með því er ég að standa vörð um náttúruna og skapa komandi kynslóðum tækifæri til þess að njóta hennar líka. Friðlýst svæði eru mikilvæg fyrir andlegt og líkamlegt heilbrigði auk þess sem efnahagsleg tækifæri fylgja verndun náttúrunnar.
Það fylgir því ábyrgð að standa vörð um þessa mögnuðu náttúru sem við eigum hér á Íslandi. Og ekki bara gagnvart okkur sem hér búum heldur líka öllum heiminum. Þá ábyrgð þurfum við sem samfélag að axla með sóma.
Í dag er Dagur íslenskrar náttúru – stöndum vörð um hana í dag sem og alla aðra daga.