Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hleyptu af stað söfnun á birkifræi á Bessastöðum í gær á Degi íslenskrar náttúru. Söfnunin er liður í átaki Skógræktarinnar og Landgræðslunnar til að auka útbreiðslu birkiskóga en talið er að þeir hafi þakið a.m.k. fjórðung landsins við landnám.
Markmið átaksins er að endurheimta birkiskóglendi og vistkerfi þess en með því næst margþættur ávinningur. Á rýru landi er gjarnan losun kolefnis því þar er gamall jarðvegur enn að rotna. Þegar landið klæðist birkiskógi stöðvast þessi losun og kolefnisbinding hefst í staðinn.
Birkifræinu verður dreift á völdum svæðum í öllum landshlutum. Nánari upplýsingar um hvernig best er að tína fræ, varðveita og dreifa er að finna á vefnum birkiskogur.is.