PO
EN

Hleypum að fólki sem þorir

Deildu 

Nú þegar aðeins dagur er í kosningar og allt á suðupunkti er vert að stoppa, anda inn og hugleiða stöðuna.

Ég hef nú farið víða undanfarnar vikur, hitt dásamlegt fólk um allt hið nýja sveitarfélag, heimsótt fyrirtæki og einstaklinga til sjávar og sveita. Það sem uppúr stendur er hversu dýrmætan mannauð við eigum hér fyrir austan. Alls staðar er fólk að skapa, þróa og nýta. Ótrúlegir frumkvöðlar sem mikilvægt er að styðja við og hlusta á. Hugmyndir fortíðar um að spilla, sóa og ganga freklega á náttúru okkar og auðlindir eru smátt og smátt að hverfa og fólk á öllum aldri kallar eftir nýjum viðhorfum.

Við í framboði VG í nýju sveitarfélagi höfum verið sjálfum okkur samkvæm frá fyrsta degi og aldrei vikið frá okkar áherslumálum um náttúruvernd, jafnrétti og sjálfbæra atvinnustefnu. Það er magnað að á þessum stutta tíma höfum við náð að brjóta okkur í gegnum áratuga umræðuhefð í sveitarstjórnarmálum á Austurlandi sem einkennst hefur af stolnum fjöðrum og loforðaflaumi sem stendur vægast sagt á völtum fótum.

Við sem bjóðum nú fram krafta okkar til að vinna fyrir nýtt sameinað sveitarfélag stöndum öll á tímamótum. Ekkert okkar hefur reynslu af viðlíka verkefni þar sem reynir á heimastjórnir og þessari áskorun að sameina sveitarfélag sem verður það landfræðilega stærsta á Íslandi. Þetta er frumraun í íslensku samfélagi. Það hefur mikið verið hamrað á reynslu í sveitarstjórnarmálum í kosningabaráttunni og þar sem ég er eini oddvitinn sem hef ekki þá reynslu hef ég að sjálfsögðu tekið þessa sneið til mín. Ég blæs hins vegar á það verandi með reynslubolta mér við hlið í framboðinu og er sannfærð um það að ég komi inn með sýn sem kallað hefur verið eftir. Ég tala fyrir áherslum sem ég sem íbúi samfélagsins og ekki síst sem kona, tel að klingi vel í eyrum fólks sem er orðið langþreytt á karllægri pólitík og atvinnustefnu.

Á lista VG eru einstaklingar með víðtæka reynslu úr öllum áttum, af sveitarstjórnarmálum og úr atvinnulífinu. Við bjóðum fram vegna þess að við trúum á málefnin sem við stöndum fyrir og trúum því að við getum öll saman skapað hér heilsueflandi, umhverfisvænt og réttlátt samfélag þar sem íbúar hafa jöfn tækifæri. Þetta er snúið verkefni sem þarf ábyrga stjórnsýslu og í það verkefni treystum við okkur fyllilega.

Hvað sem gerist á laugardaginn er ég einlæglega þakklát fyrir að sjá önnur framboð hoppa á VG vagninn og tala um málin sem skipta börnin okkar og barnabörnin mestu máli, umhverfis- og loftlagsmál. En eitt er segja og annað er að gera. Ég hvet þig kæri kjósandi að hugsa vel og vandlega til framtíðar þegar þú kýst. Við þessi tímamót, sameiningu þessara fjögurra sveitarfélaga, er mikilvægt að hleypa nýju fólki að sem leggur áherslu á gildi og málefni sem eru í takt við tímana sem við lifum. Hleypum að fólki sem þorir.

Höfundur skipar 1. sætið á framboðslista VG.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search