PO
EN

Réttindi trans og intersex fólks og barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni

Deildu 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, lagði fram þrjú frumvörp í ríkisstjórn í morgun sem tryggja eiga rétt fólks með kynhlutlausa skráningu og trans fólks auk barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.

Í fyrsta lagi er um að ræða frumvarp um breytt aldursviðmið til að breyta opinberri skráningu kyns, og samhliða nafni. Þar er lagt til að miða við 15 ára aldur í stað 18 ára. Í öðru lagi  er frumvarp sem tryggir rétt barna, sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, gegn ónauðsynlegum skurðaðgerðum og þannig er staðið vörð um líkamlega friðhelgi þeirra. Í þriðja lagi er lagt fram frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum til að tryggja lagaleg réttindi fólks með kynhlutlausa skráningu og trans fólks.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Hér er um mikilvægar réttarbætur að ræða fyrir þennan hóp fólks þar sem kynskráning þeirra er viðurkennd að fullu og jafnræðis gætt að lögum. Þær breytingar sem felast í frumvörpunum þremur koma til vegna laga um kynrænt sjálfræði sem samþykkt voru sem lög frá Alþingi sumarið 2019. Með löggjöfinni skipaði Ísland sér í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks.“

Samhliða framlagningu frumvarpanna eru birtar skýrslur tveggja starfshópa. Annar starfshópurinn fjallaði um breytingar sem þarf að gera á lögum til að tryggja réttindi trans fólks og intersex fólks svo og reglur um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna aðgerða sem tengjast kynleiðréttingu auk aldursviðmið til lækkunar vegna réttar til að breyta skráningu kynd. Hinn starfshópurinn fjallaði um málefni barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, þar á meðal um heilbrigðisþjónustu við þau auk þess að fjalla um breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og gera tillögur um breytingar til að tryggja líkamlega friðhelgi þess hóps. 

Tillögur starfshóps um ýmsar laga- og reglubreytingar vegna laga um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019

Tillögur starfshóps um málefni barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.